Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-53

RST Net ehf. (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)
gegn
Eimskipum Íslandi ehf. (Garðar G. Gíslason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Útboð
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 7. apríl 2022 leitar RST Net ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. mars sama ár í máli nr. 25/2021: RST Net ehf. gegn Eimskipum Íslandi ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til lokaðs útboðs sem gagnaðili hélt í desember 2018 vegna gerðar gámasvæðis, 11 kV háspennubúnaðar og tenginga á athafnasvæði félagsins við Sundahöfn í Reykjavík. Leyfisbeiðandi var lægstbjóðandi í verkið en gagnaðili tók tilboði annars félags. Bar gagnaðili því við að sá búnaður sem leyfisbeiðandi bauð upp á rúmaðist ekki í byggingunni sem ætti að hýsa hann. Leyfisbeiðandi höfðaði í kjölfarið mál þetta og krafðist skaðabóta sem næmu hagnaði þeim sem hann hefði haft af verkinu ef samið hefði verið við hann sem og kostnaði við gerð tilboðs.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt grein 0.4.9 í útboðs- og samningsskilmálum gagnaðila hefði honum borið að taka lægsta tilboði sem uppfyllti tæknilegar kröfur útboðsins eða hafna öllum. Landsréttur lagði til grundvallar að útboðsteikningar, sem samkvæmt grein 0.3.1 í skilmálunum voru hluti útboðsgagna, hefðu geymt upplýsingar um tæknilegar kröfur sem tilboð skyldu uppfylla og að umræddar teikningar sýndu glöggt það rými sem hýsa skyldi þann búnað sem útboðið laut að. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að tilboð leyfisbeiðanda hefði ekki uppfyllt tæknilegar kröfur útboðsgagna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars það álitaefni hvort bjóðendur í verk í útboði geti treyst því sem fram kemur í útboðsgögnum. Þá byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuna sína enda þurfi hann, eðlis starfsemi sinnar vegna, að taka þátt í útboðum af þessu tagi þar sem skýrt þurfi að vera hversu bindandi útboðsskilmálar eigi að vera. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að tilboð hans í verkið hafi fullnægt þeim kröfum sem gerðar voru í útboðsgögnum.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Bæði í dómi héraðsdóms og Landsréttar sat einn sérfróður meðdómandi í dómi og þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.