Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-45

Guðveigur Þórir Steinarsson og Linda Margaretha Karlsson (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
Þorláki Ásbjörnssyni (Skúli Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Upplýsingaskylda
  • Skoðunarskylda
  • Matsgerð
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 1. apríl 2022 leita Guðveigur Þórir Steinarsson og Linda Margaretha Karlsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. mars 2022 í máli nr. 743/2020: Þorlákur Ásbjörnsson gegn Lindu Margaretha Karlsson og Guðveigi Þóri Steinarssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsaðila lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um skaðabætur vegna tiltekinna galla sem þau telja hafa verið á fasteign sem þau keyptu af gagnaðila í júní 2017.

4. Með dómi héraðsdóms var gagnaðili dæmdur til að greiða leyfisbeiðendum 15.049.608 krónur. Með dómi Landsréttar voru kröfur leyfisbeiðenda teknar til greina að hluta og var gagnaðili dæmdur til að greiða þeim 7.446.908 krónur. Landsréttur taldi að ekki hefði verið ljóst að gagnaðili hefði vitað eða mátt vita af þeim ágöllum sem væru á eigninni og því yrði ekki talið að hann hefði veitt rangar upplýsingar eða vanrækt upplýsingaskyldu sína með saknæmum hætti. Hins vegar var fallist á það með leyfisbeiðendum að í tilteknum annmörkum, sem staðreyndir hefðu verið með matsgerð sem ekki hefði verið hnekkt, hefðu falist gallar sem hefðu verið til staðar þegar þau festu kaup á fasteigninni og að þau hefðu ekki getað veitt þeim athygli við hefðbundna skoðun. Væri að því leyti um galla að ræða sem gagnaðili bæri ábyrgð á án tillits til þess hvort honum hefði verið kunnugt um þá, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Fallist var á að umræddir ágallar á fasteigninni rýrðu verðmæti hennar svo nokkru varði í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002. Þar sem leyfisbeiðendur hefðu átt kost á endurgreiðslu á hluta virðisaukaskatts af vinnu við úrbætur á eigninni kom sú fjárhæð til frádráttar kröfu þeirra.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi með tilliti til meginreglna um munnlega og milliliðalausa málsmeðferð og mikla þýðingu varðandi mat á sönnunargildi matsgerða dómkvaddra manna. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og niðurstöður hans ekki reistar á réttum lagasjónarmiðum. Eigi þetta einkum við um mat á grandsemi í merkingu 26. gr. laga nr. 40/2002 og á framburði matsmanns. Í stað þess að sýkna af kröfu vegna ágalla á þaki hafi borið að vísa henni frá héraðsdómi sökum vanreifunar teldist umfang gallans ósannað.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.