Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-77

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Erni Steinari Arnarsyni (Þormóður Skorri Steingrímsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Hættubrot
  • Sönnun
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. apríl 2022, sem barst Hæstarétti 1. júní sama ár, leitar Örn Steinar Arnarson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í málinu nr. 288/2021: Ákæruvaldið gegn Erni Steinari Arnarsyni. Um heimild til að óska eftir áfrýjunarleyfi vísar leyfisbeiðandi til 196. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hættubrot samkvæmt 4. mgr. 220. gr. sömu laga með því að hafa veist að brotaþola þar sem hann sat í bifreið sinni, slegið hann tvisvar sinnum í andlitið, tekið hann kverkataki og fyrir að hafa stuttu síðar, eftir að brotaþoli hafði tekið sér stöðu framan við bifreið, ekið bifreiðinni greitt að honum með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Leyfisbeiðandi var sýknaður af síðarnefnda brotinu í héraði. Refsing hans í Landsrétti var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola 350.000 krónur í miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé efnislega rangur þar sem meint brot hans séu ósönnuð. Jafnframt hafi úrslit málsins fordæmisgildi um beitingu sönnunarreglna sakamálaréttarfars. Þá varði málið grundvallarréttindi sakaðs manns og um það vísað til 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.