Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-44
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Forkaupsréttur
- Hjón
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 24. mars 2023 leita Björn Ingólfsson og dánarbú Steinunnar Erlu Friðþjófsdóttur leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. febrúar sama ár í máli nr. 799/2021: Björn Ingólfsson og dánarbú Steinunnar Erlu Friðþjófsdóttur gegn Guðmundi Skúlasyni og Raffagi ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort forkaupsréttur gagnaðila á grundvelli skiptayfirlýsingar sem þinglýst var á fasteign málsaðila hefði orðið virkur við sölu leyfisbeiðandans Björns Ingólfssonar á eignarhluta sínum í fasteigninni til eiginkonu sinnar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að viðurkenna að gagnaðilar hefðu notið forkaupsréttar þegar hjónin gerðu með sér kaupsamning. Með skiptayfirlýsingunni hafði fasteigninni verið skipt í tvo eignarhluta og var þar kveðið á um gagnkvæman forkaupsrétt eigenda hvors eignarhluta um sig. Landsréttur vísaði til þess að um væri að ræða beina sölu á fasteign milli hjóna en ekki ráðstöfun eignar sem lið í opinberum skiptum til fjárslita milli þeirra. Ekki var fallist á með leyfisbeiðendum að dómaframkvæmd leiddi til þess að almennt bæri að líta svo á að forkaupsréttur yrði ekki virkur við yfirfærslu eignarréttar á milli hjóna. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekkert lægi fyrir um það í málinu hvert markaðsvirði fasteignarinnar væri og hvort ósanngjarnt teldist með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að leyfisbeiðandanum Birni yrði gert að afsala gagnaðilum fasteigninni gegn greiðslu þeirra á því kaupverði sem samningur hjónanna kvað á um.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Ekki verði séð að reynt hafi á það álitaefni fyrir dómstólum hvort samningar milli hjóna um yfirfærslu eignarréttar þeirra á milli leiði til þess að almennur forkaupsréttur verði virkur. Málið geti verið fordæmisgefandi almennt um stöðu hjóna í þessu tilliti. Þá varði málið mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda enda um að ræða heimili leyfisbeiðandans Björns. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Litið sé fram hjá því að forkaupsréttur gagnaðila feli í sér íþyngjandi takmörkun á eignarrétti leyfisbeiðenda sem varinn sé af stjórnarskrá og túlka þurfi slíkar íþyngjandi hömlur þröngt. Þá byggja þeir á að niðurstaða Landsréttar um að gagnaðilar hafi ekki sýnt af sér tómlæti hafi verið röng.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft almennt gildi um skilyrði þess að forkaupsréttur verði virkur við tilfærslu eigna milli hjóna. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.