Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-289

MVN ehf. (Grímur Sigurðsson lögmaður)
gegn
þrotabúi Neptune ehf. (Árni Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skiptastjóri
  • Samningur
  • Búskrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 18. nóvember 2021 leitar MVN ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 4. nóvember sama ár í máli nr. 578/2021: MVN ehf. gegn þrotabúi Neptune ehf. á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að lýst krafa hans við gjaldþrotaskipti gagnaðila, að fjárhæð 254.751.856 krónur en til vara 17.012.695 krónur, njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Leyfisbeiðandi byggir á því að bindandi samningur hafi komist á um kaup hans á skipinu Neptune þegar skiptastjóri gagnaðila samþykkti kauptilboð þess efnis 21. febrúar 2019. Aðalkrafan nemi fjárhæð þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna vanrækslu gagnaðila á að efna kaupsamninginn. Varakröfuna byggir hann á því að hann eigi rétt til greiðslna fyrir vinnuframlag fyrirsvarsmanna sinna vegna skipsins á tímabilinu 17. febrúar til 15. mars 2019.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna fyrrgreindum kröfum leyfisbeiðanda. Ekki var fallist á að bindandi samningur hefði komist á milli aðila um kaup leyfisbeiðanda á skipinu. Vísað var til þess að kauptilboðið hefði ekki verið borið undir veðhafa á veðhafafundi til samþykktar eða synjunar og þeim sem færu á mis við fullnustu ekki gefinn kostur á að ganga inn í boðið eða gera hærra boð, sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991. Niðurstaða héraðsdóms um að hafna varakröfu leyfisbeiðanda var staðfest með vísan til forsendna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi almennt gildi um beitingu 129. gr. laga nr. 21/1991 og um störf skiptastjóra við gjaldþrotaskipti. Þá telur hann hinn kærða úrskurð bersýnilega rangan að efni til og að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Leyfisbeiðandi bendir á að skiptastjóri hafi undirritað kauptilboðið án fyrirvara og að á honum hafi hvílt sú skylda að afla heimildar veðhafa um sölu ásamt staðfestingu á afléttingu veðkrafna við afhendingu. Niðurstaða hins kærða úrskurðar feli í sér að skiptastjóri geti einhliða hætt við samninga sem hann gerir fyrir hönd þrotabús með því einu að boða ekki til veðhafafundar. Þá geti sú niðurstaða Landsréttar ekki staðist að afdráttarlaus yfirlýsing skiptastjóra um að leyfisbeiðandi væri „löglegur eigandi skipsins“ hafi enga þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Leyfisbeiðandi hafi einnig lagt fram nýtt dómskjal í Landsrétti, sem sé í engu getið í úrskurði réttarins. Það sýni að skipið hafi verið skráð í skipaskrá á Marshall-eyjum og að engin veðbönd hafi hvílt á því þegar kauptilboðið var undirritað. Hann leggi jafnframt fram ný skjöl fyrir Hæstarétti sem sýni fram á hið sama. Loks telur hann að það leiði beinlínis af niðurstöðu Landsréttar að fallast beri á varakröfu hans sem sé í eðli sínu krafa um vangildisbætur.

6. Af gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru engin efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.