Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-83

Bob Borealis ehf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
Hallgerði ehf., Friðriki Pálssyni, Ingibjörgu Guðnýju Friðriksdóttur og Mörtu Maríu Friðriksdóttur (Einar Þór Sverrisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Einkahlutafélag
  • Stjórnarmenn
  • Hlutafé
  • Samningur
  • Skaðabótakrafa
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 9. júní 2022 leitar Bob Borealis ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. maí sama ár í máli nr. 74/2021: Bob Borealis ehf. gegn Hallgerði ehf., Friðriki Pálssyni, Ingibjörgu Guðnýju Friðriksdóttur og Mörtu Maríu Friðriksdóttur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðilum, sem eru annars vegar Hallgerður ehf. og hins vegar þrír stjórnarmenn félagsins, og krafðist skaðabóta vegna sölu Björns Erik Walter Nygaard Kers á hlut sínum í gagnaðila Hallgerði ehf. árið 2013 en leyfisbeiðandi fékk kröfuna framselda frá honum árið 2018. Kröfuna reisir leyfisbeiðandi á því að stjórnarmennirnir hafi valdið Birni tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi við gerð samnings um kaup á hlutafénu með því að halda frá honum upplýsingum um rekstur og efnahag félagsins og það hafi leitt til þess að Björn seldi gagnaðila Hallgerði ehf. eignarhlutinn á undirverði.

4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi réttarins var talið sannað að fyrrgreindur Björn, sem hefði reynslu af rekstri gagnaðila Hallgerði ehf. og notið aðstoðar bæði ráðgjafa og lögmanns við samningsgerðina, hefði átt frumkvæði að sölu hlutafjársins auk þess sem gögn málsins bentu til þess að umsamið kaupverð hefði verið málamiðlun milli samningsaðila. Þá hefði leyfisbeiðandi hvorki tekist sönnun um að viðsemjendur Björns hefðu haft vitneskju um nánar tilgreindar forsendur sem hann kvaðst hafa gefið sér við samningsgerðina né að stjórnarmenn félagsins hefðu leynt upplýsingum um rekstur þess við samningsgerðina. Þá taldi Landsréttur að tilgreind málsástæða leyfisbeiðanda um kaup á eigin hlutum hefði ekki komið fram í héraði og að ekki væru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 til þess að á henni yrði byggt við úrlausn málsins fyrir réttinum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Þá reisir hann beiðni sína á því að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og vísar um það til persónulegra hagsmuna hluthafa leyfisbeiðanda. Þá telur hann að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að röng hafi verið sú niðurstaða réttarins að fyrrgreindur Björn hefði haft nægar upplýsingar frá stjórn gagnaðilans Hallgerðar ehf. við kaupsamningsgerðina um rekstur og efnahag félagsins. Jafnframt hafi tilgreind málsástæða komið skýrlega fram í héraðsdómsstefnu en Landsréttur ranglega komist að gagnstæðri niðurstöðu. Auk þess bendir leyfisbeiðandi á að einn gagnaðila sé löglærður aðstoðarmaður dómara í Landsrétti. Þótt allir dómarar við réttinn hafi vikið sæti í málinu af þeirri ástæðu og þrír dómarar verið settir til að fara með það telur leyfisbeiðandi að ekki hafi verið gengið nægjanlega langt til að gæta að óhlutdrægni réttarins. Af þessari ástæðu hafi málsmeðferðin farið í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Jafnframt fór málsmeðferðin ekki í bága við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Beiðninni er því hafnað.