Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-123

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Pétri Þór Sigurðssyni (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Virðisaukaskattur
  • Bókhald
  • Álag
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Viðurlög
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. mars 2021 leitar Pétur Þór Sigurðsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. desember 2020 í málinu nr. 385/2019: Ákæruvaldið gegn Pétri Þór Sigurðssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómurinn var birtur honum 15. febrúar 2021. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með því að hafa ekki á árunum 2009 og 2010 staðið skil á virðisaukaskattskýrslum einkahlutafélags sem hann var í fyrirsvari fyrir og fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfsemi þess á nánar tilgreindu tímabili. Þá var hann sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 36. gr. og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald með því að láta undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald félagsins rekstrarárin 2009 og 2010. Var refsing hans ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða 35.400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu. Í dómi Landréttar kom fram að þrátt fyrir verulegan drátt á meðferð málsins, að nokkru vegna ástæðna sem raktar yrðu til leyfisbeiðanda en einnig af ástæðum sem honum yrði ekki kennt um, gæti það þó ekki leitt til þess að málinu yrði vísað frá dómi. Þá hafnaði Landsréttur málsástæðum leyfisbeiðanda er lutu að gildi og framkvæmd laga nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Talið var að lögin hefðu ekki áhrif á refsinæmi brota leyfisbeiðanda auk þess sem hann hefði ekki sótt um þau úrræði sem lögin mæltu fyrir um fyrir hönd einkahlutafélagsins.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Niðurstaða málsins hafi almenna þýðingu um lagaskil og skýringu laga nr. 24/2010, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem reyni á túlkun og skýringu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telur hann niðurstöðu Landsréttar um áhrif tafa á niðurstöðu málsins bersýnilega ranga og að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem litið hafi verið fram hjá ágöllum á rannsókn málsins, ákvörðun um saksókn og gagnaöflun af hálfu ákæruvaldsins. Loks byggir hann á því að ákvörðun viðurlaga sé bersýnilega röng og í andstöðu við dóma Landsréttar 18. desember 2020 í málum nr. 388/2019 og 534/2019 og dóma Hæstaréttar 12. mars 2021 í málum nr. 34/2019 og 35/2019. Almenna þýðingu hafi að fá úrlausn Hæstaréttar um það hver séu hæfileg viðurlög í málum af þessu tagi og hvaða áhrif dráttur á málsmeðferð eigi að hafa við ákvörðun þeirra.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að leyfisbeiðnin lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.