Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-161

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Angjelin Sterkaj (Oddgeir Einarsson lögmaður), Claudiu Sofiu Coelho Carvalho (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður), Murat Selivrada (Geir Gestsson lögmaður) og Shpetim Qerimi (Sveinn Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

 • Áfrýjunarleyfi
 • Manndráp
 • Samverknaður
 • Hlutdeild
 • Ákvörðun refsingar
 • Ásetningur
 • Sönnun
 • Rannsókn
 • Skaðabætur
 • Miskabætur
 • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðnum 18., 21. og 28. nóvember og 14. desember 2022 leita Angjelin Sterkaj, Claudia Sofia Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. október 2022 í máli nr. 735/2021: Ákæruvaldið gegn Angjelin Sterkaj, Claudiu Sofiu Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi. Ákæruvaldið telur rétt að verða við beiðnunum.

3. Leyfisbeiðendur voru ákærð fyrir manndráp með því að hafa laugardaginn 13. febrúar 2021 í félagi staðið saman að því að svipta A lífi. Í ákæru er háttsemi leyfisbeiðenda nánar lýst. Þar segir meðal annars að leyfisbeiðandinn Angjelin hafi skotið A níu sinnum í líkama og höfuð með þeim afleiðingum að hann lést. Háttsemi leyfisbeiðanda Murat er meðal annars lýst þannig að hann hafi sýnt leyfisbeiðanda Claudiu tvær bifreiðar sem tilheyrðu A og lagt var í porti við Rauðarárstíg í Reykjavík og gefið henni fyrirmæli um að fylgjast með þeim og senda nánar tiltekin skilaboð til leyfisbeiðanda Shpetims þegar hreyfing yrði á annarri hvorri bifreiðinni. Leyfisbeiðanda Claudiu er meðal annars gefið að sök að hafa fylgst, að beiðni leyfisbeiðanda Murats, með tveimur bifreiðum sem tilheyrðu A og sent fyrirfram ákveðin skilaboð til leyfisbeiðanda Shpetim þegar A ók frá dvalarstað sínum á annarri bifreiðinni. Loks er háttsemi leyfisbeiðanda Shpetims meðal annars lýst þannig að hann hafi verið samferða leyfisbeiðanda Angjelin að heimili A við Rauðagerði. Nærri heimilinu hafi hann tekið við akstri bifreiðarinnar og hleypt leyfisbeiðanda Angjelin út. Hann hafi beðið á meðan leyfisbeiðandinn Angjelin réði A bana og í kjölfarið tekið hann upp í bifreiðina og ekið á brott. Var háttsemi leyfisbeiðenda talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandinn Angjelin sakfelldur samkvæmt ákæru en hann játaði sök. Var honum gert að sæta fangelsi í 16 ár og að greiða brotaþolum miskabætur með nánar tilgreindum hætti. Aðrir leyfisbeiðendur, Claudia, Murat og Shpetim, voru hins vegar sýknuð. Með dómi Landsréttar voru allir leyfisbeiðendur sakfelld fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa staðið saman að því að svipta A lífi við heimili hans. Rétturinn taldi að framburður þeirra hefði verið ótrúverðugur. Að virtum gögnum málsins hefði leyfisbeiðendum Claudiu, Murat og Shpetim hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að leyfisbeiðandinn Angjelin hygðist ráða A af dögum. Með þátttöku í skipulagningu og öðrum undirbúningi þess að leyfisbeiðandinn Angjelin gæti hitt A einan fyrir utan heimili hans var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að þau hefðu átt verkskipta aðild að því að A var ráðinn af dögum og um samverknað allra þeirra hefði verið að ræða. Vísað var til þess að málið ætti sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu á síðari tímum. Við ákvörðun refsingar var til þess litið að atlaga leyfisbeiðanda Angjelin gegn A hefði verið þaulskipulögð og í senn ofsafengin og miskunnarlaus en hann hefði með afar einbeittum ásetningi skotið A viðstöðulaust níu skotum í brjóst og höfuð. Í ljósi þess að brotið var framið í félagi var það virt ákærðu til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af því og 1., 6. og 7. tölulið 70. gr. sömu laga, sbr. 79. gr. laganna, væri refsing leyfisbeiðanda Angjelins ákveðin fangelsi í 20 ár og leyfisbeiðenda Claudiu, Murats og Shpetims hvers um sig fangelsi í 14 ár. Þá var leyfisbeiðanda Angjelin gert að greiða brotaþolum miskabætur með nánar tilgreindum hætti.

5. Leyfisbeiðandinn Angjelin byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Vísar hann meðal annars til þess að mikilvægt sé að fá úr því skorið fyrir Hæstarétti hvort fullnægt hafi verið skilyrðum 79. gr. almennra hegningarlaga þannig að heimilt hafi verið að dæma hann til þyngri refsingar en fangelsi í 16 ár. Jafnframt telur hann málið hafa verulega almenna þýðingu þegar komi að skilyrðum samverknaðar. Þá reisir hann beiðnina á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Um það vísar hann meðal annars til framangreindrar niðurstöðu um ákvörðun refsingar auk þess sem Landsréttur hafi ekkert tillit tekið til þeirra varna er hann setti fram við meðferð málsins.

6. Leyfisbeiðandinn Claudia byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu um túlkun og skilyrði samverknaðar, sönnunarkröfur í sakamálum og réttindi sakbornings samkvæmt stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá reisir hún beiðnina á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant auk þess sem dómur réttarins sé bersýnilega rangur. Því til stuðnings vísar hún meðal annars til þess að sönnunarmat Landsréttar hafi verið frjálslegt og fordæmalaust. Loks vísar hún til þess að hún hafi verið sýknuð af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelld fyrir Landsrétti og því sé fullnægt skilyrði lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis.

7. Leyfisbeiðandinn Murat byggir beiðni sína á sambærilegum röksemdum og fram koma í beiðni leyfisbeiðanda Claudiu, meðal annars um skilyrði samverknaðar og tilvísun til lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá gerir hann jafnframt margvíslegar athugasemdir við sönnunarfærslu Landsréttar, meðal annars um að dómurinn sé í andstöðu við málatilbúnað ákæruvalds og myndbandsupptökur auk þess að fara í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu. Loks hafi refsing hans verið ákveðin til muna of þung.

8. Leyfisbeiðandinn Shpetim byggir beiðni sína á sambærilegum röksemdum og fram koma í beiðni leyfisbeiðanda Claudiu og Murats, meðal annars um skilyrði samverknaðar og tilvísun til lokamálsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá gerir hann jafnframt margvíslegar athugasemdir við sönnunarfærslu Landsréttar, meðal annars um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar og sönnunarkröfur um verkaskipta aðild í manndrápsmáli. Loks hafi refsing hans verið ákveðin til muna of þung.

9. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðenda og um önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar verður að virtum gögnum málsins að telja að úrlausn þess, meðal annars um skilyrði samverknaðar og eftir atvikum um ákvörðun refsingar, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er þá jafnframt haft í huga að þrír leyfisbeiðenda voru sýknuð af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelld fyrir Landsrétti, sbr. lokamálslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá er eins og atvikum er háttað fullnægt skilyrðum 7. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008 til að taka til greina beiðni leyfisbeiðandans Claudiu þótt beiðnin hafi borist að liðnum fresti samkvæmt 2. mgr. sömu greinar enda hefur sá skammvinni dráttur verið nægjanlega réttlættur og sætir það ekki andmælum ákæruvaldsins. Beiðnirnar eru því samþykktar.