Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-158

Borgarbyggð (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
Gunnlaugi Auðuni Júlíussyni (Jón Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Sveitarfélög
  • Sveitarstjórn
  • Orlof
  • Biðlaun
  • Miskabætur
  • Fjártjón
  • Rannsóknarregla
  • Andmælaréttur
  • Meðalhóf
  • Stjórnsýsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. desember 2022 leitar Borgarbyggð leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 11. nóvember sama ár í máli nr. 458/2021: Gunnlaugur Auðunn Júlíusson gegn Borgarbyggð. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að því hvort gagnaðila hafi verið sagt upp starfi sveitarstjóra með lögmætum hætti og hvort rétt hafi verið staðið að uppgjöri launa í kjölfar starfslokanna. Ágreiningur aðila snýr aðallega að túlkun ráðningarsamnings aðila um hvort laun í uppsagnarfresti komi til frádráttar biðlaunum.

4. Í málinu hafði gagnaðili uppi fjártjóns- og miskabótakröfur, kröfu um launaleiðréttingu fyrir nánar tilgreint tímabil, kröfu um greiðslu orlofs og kröfu um útlagðan kostnað vegna lögmannsaðstoðar. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila en með dómi Landsréttar var fallist á kröfur hans að hluta. Í dómi Landsréttar kom fram að gagnaðili ætti rétt á launum í uppsagnarfresti í þrjá mánuði og biðlaunum í sex mánuði að loknum uppsagnarfresti þar sem það væri sú túlkun ráðningarsamningsins sem best samræmdist orðalagi hans og meginreglum vinnuréttar. Þá var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila orlofslaun í uppsagnarfresti.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun samningsbundinna ákvæða um biðlaun starfsmanna sveitarfélaga. Þá byggir hann á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum um að uppsagnarfrestur gagnaðila teljist ekki til biðlaunatíma samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings aðila. Í því sambandi hafi Landsréttur ranglega vísað til dóms Hæstaréttar 11. nóvember 1999 í máli nr. 223/1999 sem hafi fjallað um túlkun bótaréttar en ekki biðlaunaréttar. Þá hafi Landsréttur við túlkun ráðningarsamnings aðila litið fram hjá ákvæði um biðlaunarétt í kjarasamningi þeim sem gilti að öðru leyti um starfskjör gagnaðila. Leyfisbeiðandi telji að meginregla opinbers starfsmanna-, sveitarstjórnar- og vinnuréttar sé skýr um að telja beri uppsagnarfrest til biðlaunatíma.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.