Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-108

Þrotabú A (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)
gegn
B (Ragnar Björgvinsson)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Skuldabréf
  • Tryggingarbréf
  • Málamyndagerningur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 18. júlí 2022 leitar þrotabú A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 246/2022: Þrotabú A gegn B. Kæruheimild er í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 15. september 2021 til úthlutunar á söluverði tilgreindrar fasteignar við nauðungarsölu verði breytt á þá leið að ekkert komi í hlut gagnaðila og að leyfisbeiðandi fái úthlutað 18.681.763 krónum. Sú krafa byggir á því að engin raunveruleg fjárkrafa standi að baki skuldabréfi sem liggur til grundvallar greiðslu til gagnaðila og að skuldabréfið og tvö tilgreind tryggingarbréf séu málamyndagerningar.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Vísað var til þess að málsgögn bæru með sér að þrotamaður hefði iðulega verið í fjárhagsvandræðum og gagnaðili hefði ítrekað greitt skuldir hans, auk þess sem löggiltur endurskoðandi sem útbjó umrædd skjöl staðfesti að þau hefðu verið gefin út vegna skulda þrotamanns við gagnaðila. Þá vísaði Landsréttur til þess að skjölin hefðu verið gefin út rúmum þremur árum áður en bú þrotamanns var tekið til gjaldþrotaskipta. Var því talið að leyfisbeiðandi hefði ekki hnekkt þeim málatilbúnaði gagnaðila að raunveruleg krafa lægi að baki skuldabréfinu og að því og tryggingarbréfunum hefði verið ætlað að hafa áhrif samkvæmt efni sínu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni í ljósi þess að kröfuhafar njóti réttar til að sækja fullnustu krafna sinna með því að láta gera fjárnám í eignum. Þá reisir leyfisbeiðandi beiðni sína á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi. Því til stuðnings er vísað til þess að niðurstaða Landsréttar muni greiða leið fyrir útgáfu tryggingarbréfa til að fylla veðrými fasteigna svo kröfuhafar sem hyggist sækja rétt sinn með fjárnámi í eignum fái síður greiðslu upp í kröfur sínar. Loks sé úrskurður Landsréttar bersýnilega rangur að efni til. Um það vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þeirrar niðurstöðu réttarins að gagnaðili hafi fært fram fullar sönnur á að raunverulegar skuldir þrotamanns við gagnaðila hafi verið að baki skuldabréfinu.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að úrlausn um það geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Beiðninni er því hafnað.