Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-52

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Kristni Skagfjörð Sæmundssyni (Gísli Tryggvason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umferðarlagabrot
  • Ávana- og fíkniefni
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi einkalífs
  • Samning dóms
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. febrúar 2022, sem barst réttinum 7. apríl sama ár, leitar Kristinn Skagfjörð Sæmundsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 17. desember 2021 í máli nr. 169/2021: Ákæruvaldið gegn Kristni Skagfjörð Sæmundssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa ekið bifreið ítrekað undir áhrifum ávana- og fíkniefna og með því að hafa haft í vörslu sinni tiltekið magn af kannabisplöntum sem hann hafði ræktað í sölu- og dreifingarskyni. Í dóminum var hafnað þeim vörnum leyfisbeiðanda að efnin hefðu eingöngu verið ætluð til eigin neyslu leyfisbeiðanda af heilsufarsástæðum og að það færi gegn stjórnarskrárvörðum rétti hans til friðhelgi einkalífs að refsa honum fyrir þá háttsemi. Refsing hans var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá voru staðfest ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu, upptöku fíkniefna og búnaðar til ólögmætrar ræktunar og meðferðar þeirra og um sakarkostnað.

4. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að áfrýjun málsins lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu og af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Í því efni vísar hann meðal annars til þess að í málinu reyni á réttindi sem njóti verndar 71. og 76. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu auk þess sem sakfelling hans brjóti í bága við 1. mgr. 65. og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi er byggt á því að ástæða sé til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant enda hafi meðal annars ekki verið tekin afstaða til allra krafna hans. Þá byggir leyfisbeiðandi í þriðja lagi á því að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að röksemdir fyrir niðurstöðu Landsréttar standist ekki áskilnað g-liðar 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 210. gr. sömu laga.

5. Það athugist að kröfugerð ákæruvaldsins samkvæmt greinargerð þess er ekki lýst með réttum hætti í hinum áfrýjaða dómi en úr henni þó að fullu leyst í forsendum hans.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu, þrátt fyrir framangreindan annmarka á samningu hins áfrýjaða dóms. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að nokkru leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Beiðninni er því hafnað.