Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-52
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fæðingarorlof
- EES-samningurinn
- Ráðgefandi álit
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 5. apríl 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars sama ár í máli nr. E-582/2021: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni en telur vafa leika á um hvort skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felld verði úr gildi ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs 3. mars 2020 um áætlun um greiðslur til leyfisbeiðanda í fæðingarorlofi úr sjóðnum og að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 261/2020, 2. september 2020.
4. Við meðferð málsins í héraðsdómi var leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Í áliti hans kom fram að 21. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, áskildi ekki að þar til bær stofnun EES-ríkis skyldi reikna bótafjárhæð á grundvelli tekna sem aflað væri í öðru EES-ríki. Hins vegar taldi dómstóllinn að það samræmdist ekki 21. gr. reglugerðarinnar að miða við engar tekjur vegna starfstímabils launþega í öðru EES-ríki og taldi þá túlkun í andstöðu við 29. gr. EES-samningsins um frjálsa för launþega.
5. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Vísað var til þess að í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið væri mælt svo fyrir að skýra skyldi lög og reglur, að svo miklu leyti sem við ætti, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggðust. Slík lögskýring tæki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum yrði svo sem framast er unnt ljáð merking sem rúmaðist innan þeirra og næst kæmist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda ættu á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæðið gæti þó ekki leitt til þess að litið yrði fram hjá skýrum orðum íslenskra laga. Af þessu leiddi að 3. gr. laga nr. 2/1993 hefði ekki getað veitt Fæðingarorlofssjóði svigrúm til að virða að vettugi skýrt og afdráttarlaust ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og komast að annarri niðurstöðu í máli leyfisbeiðanda.
6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um beitingu réttarreglna og fordæmisgildi fyrir fjölda einstaklinga sem séu í sömu stöðu eða verði það í framtíðinni. Hún vísar til þess að í málinu reyni á hvernig beita skuli reglunni „lex specialis“ sem tryggja eigi einsleitni innan ríkja EES-samningsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993. Sú skylda hvíli á aðildarríkjum EES að gæta þess að reglum EES-samningsins verði beitt með samræmdum hætti og tryggja jafnrétti einstaklinga innan svæðisins. Kjarni reglunnar sé að dómstólar innan svæðisins skuli ganga eins langt og unnt er við að túlka landsrétt til samræmis við orðalag og markmið EES-reglna til að ná þeim áhrifum sem EES-réttur stefni að.
7. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Þá eru ekki til staðar í málinu þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til að áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 134/2022. Beiðni leyfisbeiðanda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar er því samþykkt.