Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-118

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Heiðari Þór Guðmundssyni (Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Umferðarlagabrot
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ökuréttarsvipting
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 29. júlí 2022 leitar Heiðar Þór Guðmundsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní 2022 í máli nr. 506/2021: Ákæruvaldið gegn Heiðari Þór Guðmundssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómurinn var birtur 1. júlí 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa í nánar tilgreind skipti haft fíkniefni í vörslum sínum og að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar var miðað við að leyfisbeiðandi hefði þar í níunda sinn gerst sekur um akstur sviptur ökurétti og í fimmta sinn um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða áfengis, innan ítrekunartíma, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var honum gert að sæta fangelsi í 10 mánuði auk þess sem ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð.

4. Leyfisbeiðandi leitar eftir því að fá refsingu mildaða og byggir á að fyrri umferðarlagabrot hafi ekki átt að hafa ítrekunaráhrif þar sem að ítrekunartími vegna þeirra hafi verið liðinn, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Leyfisbeiðandi byggir á að dómurinn sé bersýnilega rangur að því er varði ákvörðun refsingar. Þá varði málið mikilvæga hagsmuni hans auk þess sem það hafi almenna þýðingu varðandi túlkun 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.