Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-100

A, B og C (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Málefni fatlaðra
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. apríl 2021 leita A, B og C leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars 2021 í máli nr. 72/2020: A, B og C gegn Reykjavíkurborg á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um bætur vegna miska og fjártjóns úr hendi gagnaðila sem þau töldu sig hafa orðið fyrir á nánar tilgreindu tímabili vegna þess að gagnaðili hefði ekki veitt leyfisbeiðandanum A sértækt búsetuúrræði samkvæmt 10. gr. þágildandi laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Leyfisbeiðendur byggðu á því að sú háttsemi starfsmanna gagnaðila að úthluta ekki búsetuúrræði samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem gagnaðili beri ábyrgð á.

4. Í dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um sýknu gagnaðila og talið að leyfisbeiðendur hefðu ekki sýnt fram á að gagnaðili hefði brotið gegn þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt lögum. Landsréttur taldi að það mat sem sveitarstjórnum væri falið í lögum nr. 59/1992 og lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga tæki mið af sjálfsstjórnarrétti þeirra og því að þau færu sjálf með forræði eigin tekjustofna, sbr. 1. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Hefðu þau á þeim grundvelli svigrúm til að ákveða forgangsröðun lögbundinna verkefna innan ákveðins ramma sem og svigrúm til að meta hvert tilvik fyrir sig, án þess þó að láta hjá líða að vinna að því með skipulegum og málefnalegum hætti að útfæra og veita þjónustuna. Með hliðsjón af gögnum málsins taldi Landsréttur ljóst að unnið hefði verið að því af hálfu gagnaðila að mæta aukinni þjónustuþörf eftir sértækum húsnæðisúrræðum eftir að hann tók við þjónustu við fatlað fólk frá ríkinu á árinu 2011. Gagnaðili var því talinn hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi fyrir bæði sveitarfélög og fjölmarga einstaklinga sem eru í sambærilegri stöðu og leyfisbeiðendur. Í málinu þurfi að leysa úr grundvallarálitaefnum varðandi sjálfsstjórn sveitarfélaga og hvort sú sjálfsstjórn horfi með sama hætti við öllum verkefnum, jafnt lögbundnum sem öðrum. Þá reyni í málinu á ákvarðanir sveitarfélags sem byggja á þeirri forsendu að einstakir borgarar muni sinna þeim verkefnum sem sveitarfélagið ákveður að fresta. Auk þess þurfi í málinu að taka afstöðu til endurskoðunarvalds dómstóla gagnvart forgangsröðun sveitarfélaga og hvaða kröfur verði gerðar til þess að sveitarfélög sýni fram á að forgangsröðun þeirra hafi verið forsvaranleg. Til viðbótar reyni í málinu á meginreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar um friðhelgi einkalífs, málshraða og meðalhóf.

6. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar hafi byggst á rangri beitingu réttarheimilda. Auk þess hafi engin afstaða verið tekin til eins af meginatriðum í málatilbúnaði þeirra, nánar tiltekið um afleiðingar þess þegar sveitarfélag ætlast til að einstaklingar sinni þjónustu sem hvíli á þeim samkvæmt lögum. Loks varði úrslit málsins mikilvæg réttindi þeirra enda hafi miski þeirra verið mikill og fjárhagslegt tjón töluvert. Þannig hafi gagnaðili ekki greitt fyrir nauðsynlega þjónustu en álag vegna hennar hafi leitt til þess að leyfisbeiðandi B gat ekki stundað vinnu.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.