Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-112

Oddný Arnarsdóttir (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
A og B (Ómar Örn Bjarnþórsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tjáningarfrelsi
  • Ærumeiðingar
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. apríl 2021 leitar Oddný Arnarsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. mars sama ár í málinu nr. 680/2019: Oddný Arnarsdóttir gegn A og B, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um ómerkingu fimm nánar tiltekinna ummæla sem höfð voru eftir leyfisbeiðanda og birtust 9. nóvember 2015, í Landpóstinum sem er fréttavefur fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Viðtal við leyfisbeiðanda var tekið í tilefni af fyrirhuguðum mótmælum við lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík undir yfirskriftinni „ekki mínir #almannahagsmunir“.

4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummæla leyfisbeiðanda að því marki sem þau hefðu falið í sér fullyrðingar um að gagnaðilar hefðu gerst sekir um kynferðisbrot, umfram það sem almennur fréttaflutningur gat gefið leyfisbeiðanda réttmætt tilefni til. Með aðdróttunum sem í ummælunum fólust hefði leyfisbeiðandi vegið alvarlega að persónu og æru gagnaðila sem félli undir friðhelgi einkalífs þeirra og nyti verndar samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt hefðu ummælin verið óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var leyfisbeiðanda gert að greiða hvorum gagnaðila um sig 100.000 krónur í miskabætur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir tjáningarfrelsi almennra borgara um þjóðfélagsmálefni sem séu til umfjöllunar í fjölmiðlum, þar á meðal hvaða kröfur megi gera til ályktana og framsetningar ummæla sem byggi á slíkri umfjöllun og varði eftir atvikum gagnrýni á löggjafann og handhafa opinbers valds. Leyfisbeiðandi kveður umfjöllun fjölmiðla um mál gagnaðila hafa verið óvægna og til þess fallna að almenningur, þar með talið hún, drægi þær ályktanir sem í ummælum hennar fólust. Hún hafi ekki haft ástæðu til að ætla að fréttaflutningur af máli gagnaðila væri rangur eða yrði síðar ómerktur að stórum hluta heldur verið í góðri trú um réttmæti ummæla sinna. Þá hafi hún hvorki nafngreint gagnaðila né gefið persónulegar upplýsingar um þá, enda hafi tilgangur ummælanna ekki verið að koma á þá höggi heldur verið liður í umfjöllun um kynferðisbrot og rannsókn þeirra sem hafi átt brýnt erindi í almenna þjóðfélagsumræðu. Ummælin hafi aðeins falið í sér endursögn á fjölmiðlaumfjöllun og eftir atvikum gildisdóma. Á því er byggt að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.