Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-96

A (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
B (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Lögheimili
  • Meðlag
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 30. júní 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 52/2022: A gegn B á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili hefur ekki látið beiðnina til sín taka.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um forsjá barna aðila, umgengni og meðlag. Með héraðsdómi var kveðið á um forsjá, umgengni og meðlag en fyrir Landsrétti var úrlausn málsins afmörkuð við son þeirra. Landsréttur vísaði til þess að fyrir réttinn hefðu verið lögð fram nokkur ný gögn varðandi stöðu og líðan hans eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Samkvæmt vottorði barnageðlæknis hefði drengurinn verið greindur með […]. Drengurinn væri kominn í […] auk […]. Sú meðferð hefði haft jákvæð áhrif. Þá vísaði rétturinn til að þess lagðar hefðu verið fram staðfestingar félagsráðgjafa og hegðunarráðgjafa á vegum barnaverndar […] þar sem fram kæmi að góður árangur hefði náðst í að vinna með hegðunvarvanda drengsins. Loks vísaði Landsréttur til þess að í framlagðri fundargerð teymisfundar í skóla drengsins kæmi fram að vel hefði gengið og að verið væri að láta reyna á hvort minnka mætti stuðning við hann á skólatíma. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var fallist á að drengnum væri fyrir bestu að gagnaðili færi með forsjá hans. Jafnframt var staðfest niðurstaða héraðsdóms um meðlag með drengnum og umgengni leyfisbeiðanda við hann.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars sönnunargildi þeirra gagna sem aflað er við rekstur forsjármála fyrir dómi. Niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar hafi byggt á matsgerð undirmatsmanns í stað yfirmatsmanna án þess að nokkrar haldbærar athugasemdir hafi verið gerðar við forsendur yfirmatsins. Þá reisir leyfisbeiðandi beiðni sína á því að í ljósi málsatvika varði úrslit málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar umfram það sem almennt eigi við í forsjármálum. Loks telur hún málsmeðferð fyrir Landsrétti hafa verið stórlega ábótavant og að dómur réttarins sé bersýnilega rangur. Því til stuðnings vísar hún meðal annars til þess að Landsréttur hafi dregið rangar ályktanir af gögnum málsins.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni hennar þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að forsjá barna. Jafnframt var héraðsdómur og Landsréttur skipaður sérfróðum meðdómendum. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.