Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-57

Undína Sigríður Sigmundsdóttir (Páll Kristjánsson lögmaður)
gegn
Önnu Gullu Rúnarsdóttur (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Skoðunarskylda
  • Upplýsingaskylda
  • Söluyfirlit
  • Matsgerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 13. apríl 2022 leitar Undína Sigríður Sigmundsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. mars sama ár í máli nr. 588/2020: Undína Sigríður Sigmundsdóttir gegn Önnu Gullu Rúnarsdóttur og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til kaupsamnings um fasteign milli leyfisbeiðanda sem kaupanda og gagnaðila sem seljanda. Málið lýtur að kröfu gagnaðila um eftirstöðvar kaupverðs eignarinnar en leyfisbeiðandi höfðaði gagnsök og krafðist afsláttar og/eða skaðabóta vegna ýmissa galla sem hún taldi vera á fasteigninni.

4. Í dómi Landsréttar var rakið að í söluyfirliti eignarinnar hefði verið vísað til þess að kominn væri tími á viðhald á húsinu og eignin hefði verið verðmetin í samræmi við það. Var því talið að söluverð fasteignarinnar samræmdist því að þörf hefði verið á nokkrum endurbótum á eigninni. Þá var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að gagnaðili hefði ekki veitt leyfisbeiðanda rangar upplýsingar í skilningi 27. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og ekki talið að verðmætisrýrnun fasteignarinnar vegna raka- og mygluskemmda hefði fullnægt því skilyrði 2. málsliðar 18. gr. sömu laga að rýra verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varði. Með vísan til 26. gr. laganna var á hinn bóginn fallist á skaðabótaábyrgð gagnaðila vegna músagangs í fasteigninni, kostnaðar sem leyfisbeiðandi hafði af því að rýma hana og vegna afnotamissis leyfisbeiðanda á eigninni meðan á rýmingu og grunnþrifum eignarinnar stóð. Landsréttur staðfesti því niðurstöðu héraðsdóms um að skaðabótakröfu leyfisbeiðanda yrði skuldajafnað við kröfu gagnaðila um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins og leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila mismuninn.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars túlkun gallaþröskuldar 18. gr. laga nr. 40/2002. Í öðru lagi byggir hún á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi hún orðið fyrir verulegum kostnaði við endurbætur fasteignarinnar auk þess sem kostnaður vegna dráttarvaxta sé henni þungbær. Loks byggir hún í þriðja lagi á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni. Því til stuðnings vísar hún meðal annars til þess að ranglega hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að söluverð fasteignarinnar hafi samræmst því að þörf hefði verið á endurbótum á eigninni. Jafnframt sé bersýnilega röng sú niðurstaða að fasteignin hafi ekki verið gölluð í skilningi 2. málsliðar 18. gr. laga nr. 40/2002.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.