Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-107

B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
A (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Umgengni
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 18. júlí 2022 leitar B leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 497/2021: A gegn B á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að umgengni þeirra við tvö börn sín. Landsréttur hafði með fyrri dómi 19. nóvember 2021 kveðið á um að aðilar skyldu fara sameiginlega með forsjá barna sinna en lögheimili sonar þeirra skyldi vera hjá gagnaðila og lögheimili dóttur þeirra skyldi vera hjá leyfisbeiðanda. Um umgengniskröfur sagði að aðilar skyldu vinna að því að koma á reglulegri umgengni barnanna við það foreldri sem þau byggju ekki hjá. Með dómi Hæstaréttar 25. maí 2022 í máli nr. 5/2022 var sá hluti framangreinds dóms Landsréttar sem varðaði tilhögun umgengni ómerktur og vísað aftur til Landsréttar.

4. Með dómi Landsréttar 24. júní 2022 var með nánar tilgreindum hætti mælt fyrir um inntak umgengi barna aðila við það foreldri sem þau eru ekki með lögheimili hjá og skyldi umgengni komið á í áföngum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á að málið hafi verulegt almennt gildi um mat á því hvað er börnum fyrir bestu við ákvarðanatöku í málefnum þeirra. Hún vísar einkum til þess að farið sé að vilja barns og virtur rétt þeirra samkvæmt 1. mgr. 71. gr. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Einnig varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni enda lúti það að umgengni barna við foreldri. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi og efni. Alvarlegur annmarki hafi verið á málsmeðferð héraðsdóms og Landsréttar en ekki hafi verið virtur vilji barnanna við úrlausn þess. Til viðbótar þessu hafi margar af mikilvægustu málsástæðum leyfisbeiðanda enga umfjöllun fengið. Jafnframt hafi verið verulega vikið frá fyrri fordæmum Hæstaréttar um mat á vilja barns og hvernig leggja skuli hann til grundvallar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að umgengni barna. Loks verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.