Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-149

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Einari Ágústssyni (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjársvik
  • Gjaldeyrismál
  • Endurupptaka
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 23. nóvember 2023 leitar Einar Ágústsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 27. október sama ár í máli nr. 461/2022: Ákæruvaldið gegn Einari Ágústssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 6. nóvember 2023. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar 23. nóvember 2018 í máli nr. 64/2018 var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir fjársvik samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Honum var gert að sæta fangelsi í þrjú ár og níu mánuði og að greiða brotaþolum skaðabætur. Með úrskurði Endurupptökudóms 10. júní 2022 í máli nr. 38/2021 var málið endurupptekið að beiðni leyfisbeiðanda. Með hinum áfrýjaða dómi var leyfisbeiðandi sakfelldur á ný fyrir sömu brot. Honum var gert að sæta fangelsi í þrjú ár og greiða brotaþolum skaðabætur.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun varði atriði sem hafi verulega almenna þýðingu og mjög mikilvægt sé að fá úrlausn um. Ástæða sé til að ætla að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur réttarins bersýnilega rangur um ákvörðun refsingar auk þess sem niðurstaðan gangi gegn skýrri dómvenju í málum sem rekin eru með óhóflegum drætti. Leyfisbeiðandi tekur fram að meint brot hafi verið framin á árunum 2010 til 2012 og að íslenska ríkið beri fulla ábyrgð á drætti á málsmeðferðinni. Þá telur leyfisbeiðandi það hafa verulega þýðingu að Hæstiréttur fjalli um sjónarmið er lúta að hæfi ákæruvalds og sakflytjanda málsins. Að lokum leitar leyfisbeiðandi endurskoðunar Hæstaréttar á sakfellingu eftir ákvæðum þágildandi laga um gjaldeyrismál.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.