Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-141

Bláfugl ehf. (Atli Björn Þorbjörnsson lögmaður)
gegn
Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (Karl Ó. Karlsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Lögbann
  • Verkfall
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 21. maí 2021 leitar Bláfugl ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 7. sama mánaðar í málinu nr. 177/2021: Bláfugl ehf. gegn Félagi íslenskra atvinnuflugmanna á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 5. febrúar 2021 um synjun lögbannsgerðar og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við þeim aðgerðum gagnaðila að tálma flugmönnum sem standa utan vébanda gagnaðila, sem og flugmönnum sem starfa sem verktakar utan vébanda stéttarfélaga, að fljúga flugvélum leyfisbeiðanda eða koma að mönnun áhafna flugvéla í flugrekstri leyfisbeiðanda, í krafti verkfallsaðgerða sem boðaðar voru með bréfi 15. janúar 2021 og hófust 1. febrúar sama ár klukkan 00:01.

4. Leyfisbeiðandi er flugrekandi og starfar á sviði fraktflutninga samkvæmt íslensku flugrekstrarleyfi frá árinu 2001. Leyfisbeiðandi hefur frá upphafi átt aðild að kjarasamningi við gagnaðila en sá síðasti gilti til 30. júní 2020. Samkvæmt grein 01.3 samningsins skyldi fjöldi starfandi félagsmanna gagnaðila á starfsaldurslista hjá leyfisbeiðanda vera 11 á gildistíma hans. Auk félagsmanna gagnaðila störfuðu hjá leyfisbeiðanda flugstjórar og flugmenn í verktöku. Um haustið 2020 hófu aðilar viðræður um gerð nýs kjarasamnings. Meðan á samningaviðræðum stóð, eða 30. desember 2020, sagði leyfisbeiðandi upp öllum flugmönnum innan vébanda gagnaðila með þriggja mánaða uppsagnarfresti án vinnuskyldu. Gagnaðili mótmælti uppsögn félagsmanna sinna og vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Í kjölfar árangurslausra viðræðna boðaði gagnaðili ótímabundið verkfall meðal félagsmanna sinna hjá leyfisbeiðanda frá og með 1. febrúar 2021 í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör. Í málinu liggur fyrir að þegar verktakaflugmenn leyfisbeiðanda mættu í tvö áætluð flug á Keflavíkurflugvelli fyrrnefndan dag mættu þeim verkfallsverðir og voru flugin felld niður. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að frekari flugferðir leyfisbeiðanda hafi fallið niður vegna aðgerðanna.

5. Í úrskurði Landsréttar var fjallað um aðdraganda og inntak verkfallsaðgerða félagsmanna gagnaðila og talið að þær hafi falið í sér athöfn sem hafi bæði verið byrjuð og yfirvofandi í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Hins vegar var talið að leyfisbeiðandi hefði ekki sannað eða gert sennilegt að verkfallsaðgerðir gagnaðila hefðu eða myndu brjóta gegn lögvörðum rétti hans eins og áskilið væri í fyrrnefndri 1. mgr. 24. gr. laganna og var kröfu hans hafnað.

6. Leyfisbeiðandi telur að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni en úrlausn þess hafi þýðingu fyrir réttarstöðu fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga enda varði hún túlkun á atvinnu- og félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, ákvæðum laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og kjarasamningum. Þá telur leyfisbeiðandi að kæruefnið hafi fordæmisgildi þar sem við úrlausn þess reyni á túlkun kjarasamnings sem runnið hafi sitt skeið. Leyfisbeiðandi telur að forgangsréttarákvæði hins útrunna kjarasamnings, sem veitti félagsmönnum gagnaðila forgang til starfa hjá leyfisbeiðanda, sé ekki slíkt meginatriði að það haldi gildi eftir lok gildistíma kjarasamnings og verkfall var skollið á enda myndi það binda hendur fyrirtækisins varðandi ráðningar til framtíðar. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að án tillits til hvort framangreint forgangsréttarákvæði verði talið gilda sé tekist á um það í málinu hvort ákvæði af þessu tagi stangist á við stjórnarskrárvarið neikvætt félagafrelsi, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að úrlausn um réttaráhrif uppsagna af hans hálfu hafi ríkt fordæmisgildi í vinnurétti almennt og nauðsynlegt sé að fá úrlausn um það atriði í ljósi þess vafa sem skapast hafi eftir úrskurð Landsréttar. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur enda hafi uppsagnarfrestur félagsmanna gagnaðila verið á enda 31. mars 2021. Þeir hafi því enga hagsmuni af verkfallsaðgerðum enda verði þeir ekki dæmdir aftur inn í starf. Loks leggur leyfisbeiðandi áherslu á að hann hafi gert skilmerkilega grein fyrir verktakasambandi sínu við sjálfstætt starfandi verktaka í greinargerð fyrir Landsrétti og leggi nú fram fyrir Hæstarétti samning sinn við hollenskt félag sem feli í sér að það finni sjálfstætt starfandi flugmenn til verktöku í þágu leyfisbeiðanda og reikninga vegna þess samnings sem það félag hafi gefið út til hans.

7. Leyfisbeiðandi hefur samkvæmt framansögðu lagt fram gögn fyrir Hæstarétti í því skyni að renna stoðum undir skýringar hans á verktakasambandi við þá flugstjóra og flugmenn sem gegna þeim störfum sem félagsmenn gagnaðila gegndu að hluta til áður og hnekkja með því niðurstöðu Landsréttar. Þessi gögn stafa frá honum sjálfum og var honum í lófa lagið að leggja þau fram hjá sýslumanni við fyrirtöku lögbannsmálsins eða eftir atvikum á lægra dómstigi. Framlagning þessara gagna fyrir Hæstarétti getur því ekki við þessar aðstæður stutt veitingu kæruleyfis til réttarins á grundvelli þess að ástæða sé til þess að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni, sbr. 3. málslið 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991.

8. Að virtum gögnum málsins og með tilliti til þess hvernig málið ber að dómstólum verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru, að gættu því sem áður sagði, ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.