Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-23

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Árnmari Jóhannesi Guðmundssyni (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Brot í nánu sambandi
  • Vopnalagabrot
  • Eignaspjöll
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hættubrot
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 6. febrúar 2023, sem barst Hæstarétti 15. sama mánaðar, leitar Árnmar Jóhannes Guðmundsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. desember 2022 í máli nr. 345/2022: Ákæruvaldið gegn Árnmari Jóhannesi Guðmundssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 9. janúar 2023. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir brot í fimm liðum. Í 2. ákærulið var honum gefin að sök tilraun til manndráps, húsbrot, eignaspjöll og vopnalagabrot með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn í nánar tilgreint íbúðarhús undir áhrifum áfengis og vopnaður hlöðnum skotvopnum, haglabyssu og skammbyssu, með þeim ásetningi að bana húsráðanda sem hafði yfirgefið húsið skömmu áður. Einnig að hafa í framhaldinu skotið þremur skotum úr haglabyssunni og tveimur úr skammbyssunni innandyra með nánar tilgreindum hætti. Var háttsemin í ákæru talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og 1., 2. og 4. mgr. 21. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Í 4. ákærulið var honum gefin að sök tilraun til manndráps, brot gegn valdstjórninni, eignaspjöll, hættubrot og vopnalagabrot með því að hafa skotið þremur skotum úr haglabyssu úr anddyri eða dyragætt nánar tilgreinds húss að tveimur lögreglumönnum þar sem þau voru í vari við bifreið í heimreið hússins með nánar tilgreindum hætti. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 106. gr., 211. gr. sbr. 20. gr., 1. mgr. 257. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga og 1., 2. og 4. mgr. 21. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot samkvæmt 1., 3. og 5. ákærulið. Um 2. ákærulið taldi Landsréttur sannað að leyfisbeiðandi hefði tekið ákvörðun um að ráða fyrrgreindum einstaklingi bana umrætt sinn og sýnt þann ásetning ótvírætt í verki svo að refsingu varðaði samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Þá vísaði Landsréttur til þess að við aðalmeðferð málsins hefði sækjandi fallið frá þeim hluta ákæruliðarins er laut að ætluðu húsbroti samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga. Leyfisbeiðandi hefði unað niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir önnur brot sem honum voru gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið og kom hún því ekki til endurskoðunar fyrir réttinum. Um 4. ákærulið staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að leyfisbeiðanda hefði hlotið að vera ljóst að yfirgnæfandi líkur væru fyrir því að líftjón hlytist af þeirri háttsemi hans að skjóta að tilgreindum lögreglumanni af svo stuttu færi sem raun bar vitni. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun refsingar sem ákveðin var fangelsi í átta ár.

5. Leyfisbeiðandi afmarkar beiðni sína með þeim hætti að óskað sé endurskoðunar á niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu samkvæmt 2. og 4. ákærulið en hann uni sakfellingu samkvæmt öðrum ákæruliðum. Þannig telur hann varðandi sakfellingu samkvæmt 2. ákærulið að áfrýjun lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu meðal annars um túlkun á 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga þegar svo hátti til að hinn meinti ásetningur verði ekki staðreyndur með beinum hætti. Um sakfellingu samkvæmt 4. ákærulið telur hann dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan að efni til. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að til grundvallar niðurstöðu dómsins hafi verið lagður framburður lögreglumanns sem hafi hlutdræga aðkomu að málinu auk þess sem margvíslegir annmarkar hafi verið á vettvangsrannsókn lögreglu.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.