Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-40

Þrotabú Magnúsar Þórs Indriðasonar (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Gerði Garðarsdóttur (Gunnar Egill Egilsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Riftun
  • Haldsréttur
  • Uppgjör
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 29. mars 2022 leitar þrotabú Magnúsar Þórs Indriðasonar leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. mars 2022 í máli nr. 167/2021: Gerður Garðarsdóttir gegn þrotabúi Magnúsar Þórs Indriðasonar og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu leigu úr hendi gagnaðila að fjárhæð 15.995.882 krónur fyrir afnot af fasteign sem gagnaðili keypti af leyfisbeiðanda en rifti síðar kaupum á.

4. Með héraðsdómi var fallist á greiðsluskyldu að hluta og gagnaðili dæmd til að greiða leyfisbeiðanda 5.937.750 krónur. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknuð af kröfu leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að krafa leyfisbeiðanda tæki að hluta til þess tímaskeiðs þegar gagnaðili hefði haft umráð fasteignarinnar samkvæmt kaupsamningi sem þá stóð til að yrði efndur eftir aðalefni sínu en frá þeim tíma sem gagnaðili hefði lýst yfir riftun hefðu umráð stuðst við haldsrétt í fasteigninni. Var til þess vísað að í haldsrétti í fasteign fælist eðli máls samkvæmt að sá sem hans nyti hefði eignina í umráðum sínum. Ekki væru efni til annars en að líta svo á að gagnaðili hefði haft haldsrétt í fasteigninni frá því hún lýsti yfir riftun og þar til umráðum hennar yfir fasteigninni lauk. Landsréttur taldi að það fengi vart samrýmst þeim rétti og sjónarmiðum sem lægju honum til grundvallar að haldsréttarhafi þyrfti að sæta því að vera gert að greiða sérstaklega fyrir þau afnot af eigninni sem væru samfara lögmætum umráðum hennar yfir henni. Var því komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að fallast á að leyfisbeiðanda bæri réttur til greiðslu fyrir afnot gagnaðila af fasteigninni.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og jafnframt sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til. Túlkun réttarins á 33. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sé röng og niðurstaðan fari í bága við almennar ólögfestar reglur kröfuréttar um riftunaruppgjör. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðuna jafnframt í andstöðu við eðli og inntak haldsréttar. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda varði það verulega fjárhagslega hagsmuni hans.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því geti haft fordæmisgildi um uppgjör við riftun í fasteignakaupum þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.