Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-59

A (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Starfslok
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 22. apríl 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars sama ár í máli nr. E-1054/2021: A gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til bréfs [...] 26. mars 2019 til leyfisbeiðanda þar sem honum var tilkynnt um starfslok hans frá 30. september 2019 á grundvelli 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en í ákvæðinu kemur fram að starfsmanni skuli jafnan segja upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Leyfisbeiðandi skrifaði síðar undir tímabundinn ráðningarsamning við [...] sem í kjölfarið var framlengdur nokkrum sinnum. Hann höfðaði í kjölfarið mál þetta og gerði meðal annars kröfu um viðurkenningu á því að launagreiðslur hans eftir 1. október skyldu reiknaðar með sama hætti og þær voru fyrir þann tíma.

4. Með dómi héraðsdóms var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Ekki var fallist á að í breyttum starfskjörum hans eftir 1. október 2019 hefði falist ólögmæt mismunun samkvæmt tilgreindum ákvæðum laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að skilyrði fyrir áfrýjun héraðsdóms í málinu beint til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Hann telur að niðurstaða málsins geti haft mikla þýðingu fyrir einstaklinga sem hafa náð 70 ára aldri og starfa áfram hjá opinberum stofnunum eftir þann tíma. Niðurstaðan geti þannig verið fordæmisgefandi fyrir mjög stóran hóp einstaklinga og haft almenna þýðingu fyrir ákvarðanatöku um hvernig samninga megi gera við einstaklinga sem starfa hjá hinu opinbera eftir að hafa náð 70 ára aldri.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni um leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu beint til Hæstaréttar hafnað.