Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-122

Einn á móti X ehf. og Gunnar Briem (Þorsteinn Einarsson lögmaður)
gegn
Ásum frístundabyggð (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnarskrá
  • Félagafrelsi
  • Félagsgjöld
  • Málskostnaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 13. október 2022 leita Einn á móti X ehf. og Gunnar Briem leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. september 2022 í máli nr. 199/2020: Einn á móti X ehf. og Gunnar Briem gegn Ásum frístundabyggð á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að kröfu gagnaðila, sem er félag umráðamanna lóða undir frístundahús í frístundabyggðinni Ásahverfi, um greiðslu árgjalds vegna starfsemi félagsins sem á var lagt árin 2016, 2017 og 2018. Einn á móti X ehf. var eigandi lóðar í frístundabyggðinni en leyfisbeiðandinn Gunnar Briem leigutaki hennar samkvæmt leigusamningi 1. maí 2017.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandinn Einn á móti X ehf. dæmdur til að greiða kröfu gagnaðila en leyfisbeiðandinn Gunnar Briem sýknaður. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús væri umráðamönnum húsa skylt að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að skylda umráðamanns lóðar í frístundabyggð til aðildar að slíku félagi væri ekki í andstöðu við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki lægi annað fyrir en að ákvarðanir gagnaðila hefðu verið teknar með lögmætum hætti og hefði hann ekki farið út fyrir hlutverk sitt. Landsréttur taldi að leyfisbeiðandinn Gunnar Briem hefði verið umráðamaður lóðarinnar og félagsmaður í gagnaðila frá 1. maí 2017 en Einn á móti X ehf. fyrir þann tíma. Landsréttur dæmdi leyfisbeiðandann Einn á móti X ehf. til greiðslu árgjalds sem ákveðið var á aðalfundi gagnaðila vegna ársins 2016 en sýknaði félagið af kröfum um greiðslu árgjalda sem lögð voru á árin 2017 og 2018 þar sem leyfisbeiðandinn Gunnar Briem taldist hafa verið umráðamaður lóðarinnar þau ár í skilningi laga nr. 75/2008. Þar sem gagnaðili hefði ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti gagnvart leyfisbeiðandanum Gunnari Briem kom krafa á hendur honum ekki til álita fyrir Landsrétti.

5. Leyfisbeiðandinn Einn á móti X ehf. byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um skýringu á 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og hvort ákvæði 17. gr. laga nr. 75/2008 samræmist því. Leyfisbeiðandi telur málið jafnframt varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Einnig sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur um þá niðurstöðu að undantekningarákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008 eigi ekki við um gagnaðila. Jafnframt sé bersýnilega röng sú niðurstaða Landsréttar að dæma hann til greiðslu félagsgjalds vegna ársins 2017 á þeim grundvelli að hann hafi verið umráðamaður lóðarinnar enda hafi leyfisbeiðandinn Gunnar Briem tekið lóðina á leigu með leigusamningi 1. maí 2017.

6. Leyfisbeiðandinn Gunnar Briem byggir á því að niðurstaða Landsréttar um niðurfellingu málskostnaðar milli hans og gagnaðila fyrir héraðsdómi og Landsrétti sé bersýnilega röng að efni til og í andstöðu við 130. gr. laga nr. 91/1991.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.