Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-80

B og C (Jóhannes S. Ólafsson lögmaður)
gegn
A (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Skiptastjóri
  • Þóknun
  • Málskostnaður
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. júní 2022 leita B og C leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 24. maí sama ár í máli nr. 201/2022: A gegn B og C og gagnsök á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili hefur ekki látið beiðnina til sín taka.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að þóknun gagnaðila sem skiptastjóra dánarbús verði lækkuð. Með úrskurði Landsréttar var fallist á kröfuna með þeim hætti að þóknunin skyldi lækkuð úr 13.869.090 krónum með virðisaukaskatti í 10.000.000 króna með virðisaukaskatti. Landsréttur rakti að samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að skipti dánarbúsins hefðu ekki verið einföld og þar hefðu risið álita- og ágreiningsmál sem rekin voru fyrir dómstólum. Þegar fyrirliggjandi gögn og verkefni dánarbúsins væru virt heildstætt yrði þó að telja að leyfisbeiðendum hefði með ítarlegum málatilbúnaði sínum tekist að sýna fram á að fjöldi vinnustunda í yfirliti gagnaðila hefði verið umtalsvert meiri en leyfisbeiðendur hefðu mátt vænta í ljósi atvika og að tímaskráningar hefðu verið úr hófi. Var því fallist á að lækka þóknun gagnaðila með framangreindum hætti. Þá var málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fyrir Landsrétti felldur niður.

4. Leyfisbeiðendur byggja á því að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Því til stuðnings vísa þau einkum til niðurstöðu Landsréttar um að fella niður málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti. Sú niðurstaða sé í andstöðu við viðteknar venjur dómstóla við ákvörðun málskostnaðar og skýringu á ákvæði 130. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt telja þau að þóknun gagnaðila hafi verið lækkuð of lítið. Þá reisa þau beiðni sína á því að kæruefnið varði bæði mikilsverða almannahagsmuni auk þess sem niðurstaðan hafi fordæmisgildi enda liggi fyrir fá fordæmi Hæstaréttar sem taki á sambærilegu ágreiningsefni.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Aftur á móti kann niðurstaða Landsréttar að vera bersýnilega röng að því er varðar ákvörðun um málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti. Af þeim sökum er rétt að leyfa kæru málsins og er beiðnin því samþykkt.