Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-78

Lindarvatn ehf. (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)
gegn
DS lausnum ehf. (Halldór Þ. Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Leigusamningur
  • Umboð
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 2. júní 2022 leitar Lindarvatn ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. maí 2022 í máli nr. 365/2021: Lindarvatn ehf. gegn DS lausnum ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort komist hafi á bindandi samningur milli þeirra um leigu leyfisbeiðanda á byggingarkrana af gagnaðila fyrir milligöngu félagsins Beka ehf.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur þar sem fallist var á kröfur gagnaðila og leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða fjárhæð sem svaraði til útgefinna ógreiddra reikninga fyrir leigu á byggingarkrana og viðurkenndur réttur gagnaðila til greiðslu leigugjalds út það lágmarkstímabil sem leigan skyldi standa. Gagnaðili byggði á því að hann hefði gert munnlegan samning við Beka ehf., sem hafi haft umboð til samningsgerðarinnar. Landsréttur taldi ýmis gögn málsins renna stoðum undir að á hefði komist samningur milli aðila. Þá hefðu tölvupóstsamskipti sem lágu fyrir í málinu rennt styrkum stoðum undir að samningur hefði komist á. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að sannað væri að Beka ehf. hefði skuldbundið leyfisbeiðanda við leigusamninginn.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Annars vegar þar sem niðurstaða um umboð Beka ehf. til að skuldbinda leyfisbeiðanda virðist byggja á því að samningur um leigu á krönum hafi rúmast innan kostnaðaráætlunar og því ekki verið þörf á samþykki stjórnar áður en gengið hafi verið til samninga ásamt því að vísað sé til þess að Beka ehf. hafi haft rúmar heimildir til að skuldbinda áfrýjanda. Landsréttur fjalli þó ekki um það í niðurstöðu sinni hvort að samningur hafi í raun fallið innan kostnaðaráætlunar eða ekki. Hins vegar hafi Landsréttur látið hjá líða að taka afstöðu til þess hvert raunverulegt tjón gagnaðila hafi verið og hvort að hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að takmarka tjón sitt. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en í málinu sé leyst úr mikilvægu lagalegu álitaefni sem ekki hafi verið skýrlega leyst úr í íslenskri dómaframkvæmd. Þannig sé takmörkuð dómaframkvæmd fyrir hendi um hvað falli innan umboðssamninga, hvar mörk umboðshafa liggi í samningssambandi og hvaða skyldur hvíli á viðsemjanda til að ganga úr skugga um að umboð sé fullnægjandi.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.