Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-145

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Frelsissvipting
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 26. apríl 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars sama ár í málinu nr. 253/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en dómurinn var birtur honum 29. mars sama ár. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola án hennar samþykkis með því að beita hana nánar tilgreindu ofbeldi og hótunum og með því að svipta hana frelsi í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund. Á hinn bóginn féllst Landsréttur ekki á að leyfisbeiðandi hefði jafnframt gerst sekur um brot í nánu sambandi, sbr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til, sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Hann byggir á því að við mat á sönnun í dóminum hafi ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem réttarfarsreglur sakamálaréttarfars geri ráð fyrir.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.