Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-17

A (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
Skattinum (Snorri Olsen ríkisskattstjóri)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Aðfarargerð
  • Fjárnám
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 3. febrúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 20. janúar 2023 í máli nr. 754/2022: Skatturinn gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem fram fór 17. mars 2022 verði felld úr gildi. Ágreiningur aðila snýr aðallega að því hvort reglur nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda eigi við þegar innheimtumaður krefst tryggingarráðstafana, svo sem kyrrsetningar eigna eða fjárnáms í eignum skuldara, til tryggingar greiðslu opinberra gjalda. Þá er deilt um hvort framgangur innheimtumanns ríkissjóðs hafi verið í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og jafnræði.

4. Héraðsdómur felldi fyrrgreinda aðfarargerð sýslumanns úr gildi. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og staðfesti gerðina. Í úrskurði Landsréttar kom fram að reglur nr. 797/2016 tækju samkvæmt efni sínu til ráðstöfunar greiðslna sem inntar hefðu verið af hendi til lúkningar þeirra opinberu gjalda sem þar væru tilgreind. Umræddar reglur mæltu á hinn bóginn ekki fyrir um forgangsröð skattkrafna þegar innheimtumaður krefðist tryggingarráðstafana, svo sem kyrrsetningar eigna eða fjárnáms í eignum skuldara til tryggingar greiðslu opinberra gjalda. Reglurnar hefðu því ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá var ekki fallist á að gagnaðili hefði brotið gegn jafnræðisreglu eða meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og varði mikilsverða almannahagsmuni. Því til stuðnings vísar hann til þess að upp sé komin réttaróvissa um gildi reglna nr. 797/2016. Landsréttur hafi með úrskurði sínum í raun ógilt reglurnar við þær aðstæður þegar fjárnáms hefur verið krafist hjá gjaldanda og þannig geti innheimtumaður ríkissjóðs vikið sér undan reglum sem hafi verið settar til hagsbóta fyrir gjaldendur. Þá byggir hann á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því efni vísar hann einkum til þeirrar niðurstöðu réttarins að fjárnám sé tryggingarráðstöfun og ákvæði reglna nr. 797/2016 taki ekki til slíkra ráðstafana en að mati leyfisbeiðanda eigi reglurnar að gilda á öllum stigum innheimtu.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni til. Beiðninni er því hafnað.