Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-92

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Hafþóri Loga Hlynssyni (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Peningaþvætti
  • Upptaka
  • Hegningarauki
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. mars 2021 leitar Hafþór Logi Hlynsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. janúar 2021 í málinu nr. 19/2019: Ákæruvaldið gegn Hafþóri Loga Hlynssyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings með refsiverðum brotum. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á misræmi í útstreymi fjár af reikningum sínum og skráðum tekjum á sama tímabili. Þá hefði leyfisbeiðandi verið sakfelldur í tveimur sakamálum á árunum 2017 og 2018 sem lutu meðal annars að fíkniefnalagabrotum og innflutningi fíkniefna til söludreifingar. Þannig hefðu brot hans verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning. Með hliðsjón af framangreindu og eins og atvikum var að öðru leyti háttað taldi dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að leyfisbeiðandi hefði á umræddum tíma aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot hans var hegningarauki við þrjá eldri dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, og var einn þeirra skilorðsdómur sem tekinn var upp og dæmdur með í málinu, sbr. 60. gr. laganna. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í 20 mánuði og honum jafnframt gert að sæta upptöku á 2.530.000 krónum og Teslu-bifreið með vísan til 69. gr. og 69. gr. b almennra hegningarlaga.

4. Leyfisbeiðandi telur að fullnægt sé skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Hann byggir á því málið hafi fordæmisgildi og að úrlausn þess hafi almenna þýðingu um sönnun bæði hvað varði hina ætluðu refsiverðu háttsemi og einnig um upptökuþátt málsins. Vísar leyfisbeiðandi til þess að í málinu hafi í fyrsta skipti fyrir áfrýjunardómstóli reynt á sakargiftir um ætlað sjálfsþætti samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga án þess að nokkru sé til að dreifa um frumbrotin sem liggja til grundvallar þar með talið brotategund eða heiti ætlaðs frumbrots. Samkvæmt dómi Landsréttar hafi verið lagt til grundvallar að nægilegt hafi verið til sönnunar um ætlað peningaþvættisbrot að ákæruvaldið hafi sýnt fram á að velta og útgjöld leyfisbeiðanda hafi verið hærri en sem nam tekjum hans samkvæmt opinberum gögnum og hann ekki getað gefið trúverðugar skýringar um að mismunarins hafi hann aflað með lögmætum hætti. Þá sé hann sakfelldur á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en enga tilvísun sé að finna í dómi Landsréttar til 2. mgr. 264. gr. sömu greinar þótt í verknaðarlýsingu sé refsiverðri háttsemi lýst sem sjálfsþvætti. Gæti þannig ekki samræmis á milli verknaðarlýsingar í ákæru og þess hegningarlagaákvæðis sem ákærði var sakfelldur fyrir í dómi Landsréttar. Einnig telur leyfisbeiðandi að málið hafi fordæmisgildi um hver sé hæfileg refsiákvörðun fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga verði komist að þeirri niðurstöðu að sakfelling skuli standa.

5. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að úrlausn málsins hafi fordæmisgildi um hvort skilyrði 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga geti talist uppfyllt án þess að sönnuð hafi verið tengsl ætlaðs ávinnings við brot af tiltekinni gerð. Í dómi Landsréttar sé litið fram hjá því að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði um að þau efnisatriði séu fyrir hendi og jafnframt skorti í dómi réttarins að rökstutt sé á hvern hátt dómurinn telji að skilyrði upptöku samkvæmt 1. og 2. tölulið 1. mgr. 69. gr. b séu uppfyllt. Ekki hafi heldur verið tekin afstaða í dóminum til varna leyfisbeiðanda sem byggðar voru á efnisatriðum samkvæmt 4. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga um að hann hafi í málinu sýnt fram á að verðmætanna hafi verið aflað á lögmætan hátt. Með vísan til þessa telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

6. Ákæruvaldið leggst ekki gegn beiðninni og telur að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu þar sem í málinu reyni á túlkun 69. gr. b almennra hegningarlaga í fyrsta skipti auk þess sem reyni á frekari túlkun 264. gr. sömu laga. Ákæruvaldið telur þó dóm Landsréttan réttan og hafnar því að hann sé haldinn verulegum annmörkum vegna túlkunar laga eða mats á sönnunargögnum.

7. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn um beitingu 69. gr. b og 264. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.