Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-93

Dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansína Sesselja Gísladóttir (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður), Elísa Finnsdóttir, Gísli Finnsson (Sigurður Jónsson lögmaður), Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir (Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður), Karl Lárus Hjaltested, Sigurður Kristján Hjaltested (Sigmundur Hannesson lögmaður), Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested (Valgeir Kristinsson lögmaður)
gegn
Kópavogsbæ (Guðjón Ármannsson lögmaður) og dánarbúi Þorsteins Hjaltested (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarréttur
  • Eignarnám
  • Óbeinn eignarréttur
  • Afnotaréttur
  • Erfðaskrá
  • Matsgerð
  • Samþykkt að hluta

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 27. júní 2022 leita Elísa Finnsdóttir, Gísli Finnsson, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundur Gíslason, Hansína Sesselja Gísladóttir, Karl Lárus Hjaltested, Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 36/2021: Kópavogsbær gegn dánarbúi Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansínu Sesselju Gísladóttur, Elísu Finnsdóttur, Gísla Finnssyni, Guðmundi Gíslasyni, Margréti Margrétardóttur, Karli Lárusi Hjaltested, Sigurði Kristjáni Hjaltested, Markúsi Ívari Hjaltested og Sigríði Hjaltested og dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansína Sesselja Gísladóttir, Elísa Finnsdóttir, Gísli Finnsson, Guðmundur Gíslason, Margrét, Margrétardóttir, Karl Lárus Hjaltested, Sigurður Kristján Hjaltested, Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested gegn Kópavogsbæ og dánarbúi Þorsteins Hjaltested á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda, sem eru lögerfingjar í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, um bætur úr hendi gagnaðila Kópavogsbæjar til dánarbúsins vegna fjögurra tilvika frá árunum 1992, 1998, 2000 og 2007 þar sem gagnaðilinn Kópavogsbær tók eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda.

4. Í héraði féllu leyfisbeiðendur frá öllum kröfum á hendur gagnaðila dánarbúi Þorsteins Hjaltested. Með héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að kröfur leyfisbeiðenda um eignarnámsbætur væru fyrndar í þremur tilvika. Leyfisbeiðendur fengu aftur á móti dæmdar bætur vegna fjórða eignarnámsins árið 2007. Með dómi meirihluta Landsréttar var gagnaðili Kópavogsbær sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðenda. Rétturinn staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að kröfur vegna eignarnáma árin 1992, 1998 og 2000 væru fyrndar. Þá taldi rétturinn að leyfisbeiðendur hefðu ekki sýnt fram á að þeir hefðu orðið fyrir tjóni vegna eignarnámsins árið 2007 og sýknaði því gagnaðila Kópavogsbæ af öllum kröfum. Einn dómenda Landsréttar taldi hins vegar að staðfesta bæri héraðsdóm.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars réttarsamband handhafa beins eignarréttar annars vegar og óbeins eignarréttar hins vegar. Vísa þau til þess að óbeinn eignarréttur veiti rétthafanum almennt aðeins afmarkaðar heimildir eignarréttar. Hverjar þær séu í hverju tilviki fyrir sig ráðist af efni þeirrar heimildar sem óbeini eignarrétturinn byggi á. Dómur Hæstaréttar í þessu máli muni geyma svör um hvert sé inntak þessara réttinda og hvar mörk þeirra liggi. Jafnframt varði málið verulega fjárhagslega hagsmuni leyfisbeiðenda. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Því til stuðnings vísa þau meðal annars til þess að hann gangi gegn dómi Hæstaréttar 16. mars 2016 í máli nr. 121/2016.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um inntak og mörk beins og óbeins eignarréttar og í því sambandi bætur vegna eignarnáms. Jafnframt er þess að gæta að málið varðar mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda en Landsréttur klofnaði í afstöðu sinni og sneri við niðurstöðu héraðsdóms sem féllst að hluta til á kröfur þeirra. Þegar þetta er virt heildstætt er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 og er beiðnin því tekin til greina gagnvart gagnaðila Kópavogsbæ. Engin efni eru hins vegar til að áfrýjunarleyfið taki til gagnaðila dánarbús Þorsteins Hjaltested vegna málskostnaðar sem leyfisbeiðendum var gert að greiða dánarbúinu. Að því leyti er beiðninni hafnað.