Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-170

LBI ehf. (Kristinn Bjarnason lögmaður)
gegn
Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður), Halldóri Jóni Kristjánssyni (Hilmar Magnússon lögmaður), Sigríði Elínu Sigfúsdóttur (Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður) og QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. vegna QBE Syndicate 1886 (Viðar Lúðvíksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Vátrygging
  • Sönnun
  • Matsgerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 23. júní 2021 leitar LBI ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. maí 2021 í málinu nr. 58/2019: LBI ehf. gegn Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, Halldóri Jóni Kristjánssyni, Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. vegna QBE Syndicate 1886 og QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd. vegna QBE Syndicate 1886 gegn LBI ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Með beiðni 21. júní sama ár leitar Sigurjón Þorvaldur Árnason jafnframt leyfis til að áfrýja dóminum fyrir sitt leyti.

4. Leyfisbeiðandi LBI ehf. höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta úr hendi leyfisbeiðanda Sigurjóns Þorvalds og gagnaðila vegna vanrækslu leyfisbeiðanda Sigurjóns Þorvalds og gagnaðilanna Halldórs Jóns og Sigríðar Elínar, fyrrum starfsmanna leyfisbeiðanda LBI ehf. sem áður hét Landsbanki Íslands hf. Skaðabótakrafan var reist á því að umræddir starfsmenn hefðu sýnt af sér vanrækslu við að innheimta bankaábyrgð, sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafði veitt í lok desember 2007 að fjárhæð 18 milljarðar króna, eða gera aðrar ráðstafanir til þess að halda ábyrgðinni við, en hún stóð meðal annars til tryggingar á tilgreindu peningaláni bankans til Fjárfestingafélagsins Grettis hf. Peningalánið féll í gjalddaga 18. júní 2008 án þess að skuldarinn endurgreiddi lánið. Gildistími fyrrgreindrar bankaábyrgðar rann út 27. sama mánaðar án þess að gengið væri á hana. Krafa leyfisbeiðanda LBI ehf. á hendur öðrum gagnaðilum var reist á því að þeir væru skuldbundnir til þess að greiða vátryggingarbætur vegna tjóns, sem varð við fyrrnefnda vanrækslu, á grundvelli ábyrgðartryggingar fyrir stjórnendur og starfsmenn Landsbanka Íslands hf.

5. Landsréttur taldi að sýnt hefði verið fram á að vanræksla leyfisbeiðanda Sigurjóns Þorvalds hefði valdið leyfisbeiðanda LBI ehf. tjóni með því að bankaábyrgðin var ekki innheimt, sem hefði numið að lágmarki þeirri fjárhæð sem gerð var krafa um að fá bætt. Dómurinn féllst á að leyfisbeiðandi Sigurjón Þorvaldur bæri skaðabótaábyrgð á tjóninu samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Hins vegar sýknaði Landsréttur gagnaðilana Halldór Jón og Sigríði Elínu. Landsréttur sýknaði jafnframt aðra gagnaðila þar sem þeir voru meðal annars taldir hafa fært viðhlítandi sönnur á að bankinn hefði veitt ófullnægjandi eða rangar upplýsingar í umsókn um tryggingarvernd fyrir stjórnendur sína um atvik sem bankinn vissi eða mátti vita að hefðu verulega þýðingu fyrir mat vátryggjenda á áhættu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

6. Leyfisbeiðandi LBI ehf. byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi sem fordæmi þar sem málið sé eina skaðabótamálið sem rekið hefur verið á hendur fyrrum æðstu stjórnendum þeirra fjármálafyrirtækja sem féllu haustið 2008. Þar reyni á ábyrgð vátryggjenda á tjóni sem slíkir aðilar hafa valdið og túlkun á ákvæðum 19., 23. og 24. gr. skaðabótalaga. Málið hafi fordæmisgildi um skyldu og ábyrgð framkvæmdastjóra hlutafélaga og þá sérstaklega aðstöðu þar sem fleiri en einn skipi stöðu framkvæmdastjóra. Jafnframt geti málið haft fordæmisgildi um túlkun ákvæða IV. kafla laga nr. 30/2004, einkum 19. og 20. gr., og þá einkum hvaða afleiðingar vanræksla á upplýsingaskyldu geti haft í för með sér. Leyfisbeiðandi LBI ehf. byggir einnig á því að niðurstaðan varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda um verulegt tjón að ræða. Loks telur hann að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Landsréttur hafi meðal annars, í stað þess að leggja mat á sönnunargildi matsgerðar, bætt úr augljósum ágöllum hennar með eigin röksemdafærslu og túlkun, auk þess að líta fram hjá umfangsmiklum og þýðingarmiklum fyrirvörum við niðurstöður matsmanna. Þá sé mat Landsréttar á gildi tiltekinna ummæla í stefnu í héraði röng. Loks hafi dómurinn lagt til grundvallar málsatvik í öðru dómsmáli, þótt fyrir hendi væri nýrri dómur sama dómstóls, sem hafi fjallað um sömu málsatvik en komist að öndverðri niðurstöðu, í andstöðu við 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

7. Leyfisbeiðandi Sigurjón Þorvaldur byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni og formi til. Niðurstaða Landsréttar um skaðabótaskyldu hans byggi bæði á röngu mati á sýnilegum sönnunargögnum málsins og rangri túlkun á 3. mgr. 19. gr. skaðabótalaga sem sé bæði í andstöðu við yfirlýst markmið löggjafans við setningu laganna og orðalag ákvæðisins sjálfs. Þá fari hún í bága við meginreglur um bótaskyldu starfsmanns gagnvart vinnuveitanda sem keypt hefur ábyrgðartryggingu til verndar starfsmönnum sínum. Auk þess hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til málsástæðna hans um að fella ekki vexti og dráttarvexti á bótafjárhæðina fyrr en frá og með dómsuppsögu. Jafnframt séu ýmis önnur atriði í niðurstöðu Landsréttar röng svo sem um tjón leyfisbeiðanda LBI ehf. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun á 3. mgr. 19. gr. skaðabótalaga þegar starfsmaður veldur tjóni af gáleysi. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar snerti mikilvæga hagsmuni sína enda var honum gert að greiða fjárhæð sem honum er um megn að greiða.

8. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðnum um áfrýjunarleyfi er því hafnað.