Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-192

Tryggja ehf. (Ágúst Ólafsson lögmaður)
gegn
A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vátryggingamiðlun
  • Vátryggingarsamningur
  • Örorka
  • Upplýsingagjöf
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 8. júlí 2021 leitar Tryggja ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. júní sama ár í málinu nr. 24/2020: A gegn Tryggja ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að uppgjöri bóta vegna afleiðinga slyss sem gagnaðili varð fyrir í apríl 2016 þegar hásin í vinstri fæti hans slitnaði. Starfsverndartrygging gagnaðila hafði runnið út þegar slysið átti sér stað en leyfisbeiðanda hafði láðst að tilkynna honum um að hún yrði ekki endurnýjuð. Viðurkenndi leyfisbeiðandi af þessum sökum með dómsátt árið 2017 bótaábyrgð og ábyrgðist uppgjör vátryggingarbóta eftir efni vátryggingarsamningsins eins og niðurfelling hans hefði ekki átt sér stað. Í kjölfarið greindi leyfisbeiðanda og gagnaðila á um efni vátryggingarsamningsins, hvort upplýsingagjöf gagnaðila um heilsufar hans í umsókn um trygginguna ætti að leiða til þess að bótaábyrgð félli niður í heild eða að hluta og um umfang tjóns gagnaðila. Með dómi Landsréttar var fallist á rétt gagnaðila til bóta samkvæmt tryggingunni fyrir tímabundna og varanlega örorku í samræmi við matsgerð dómkvadds matsmanns. Landsréttur taldi jafnframt að ekki hefði verið sýnt fram á að nokkur tengsl væru milli þess að hásin gagnaðila slitnaði og þeirra upplýsinga um heilsufar sem hann vanrækti að veita eða veitti ranglega.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Landsréttur hafi túlkað fyrrgreindan vátryggingarsamning með röngum hætti, auk þess sem ótækt hafi verið að taka mið af matsgerð dómkvadds matsmanns enda ekki í höndum lækna að leggja mat á það hvort gagnaðili væri óvinnufær til að starfa sem sendibílstjóri. Þá hafi Landsréttur ranglega komist að þeirri niðurstöðu að vanræksla gagnaðila á upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga við töku tryggingarinnar hafi ekki leitt til þess að fella ábyrgð leyfisbeiðanda niður að hluta eða í heild, sbr. 83. gr. sömu laga. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða málsins hafi almennt gildi um ýmis atriði, svo sem lögskýringarreglur, sönnunarmat og sönnunargildi matsgerða lækna. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.