Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-208

A (Magnús Norðdahl lögmaður)
gegn
barnaverndarnefnd Kópavogs (Þyrí H. Steingrímsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Barnavernd
  • Forsjársvipting
  • Áfrýjunarfrestur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. ágúst 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. júní sama ár í málinu nr. 82/2021: A gegn barnaverndarnefnd Kópavogs á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði svipt forsjá þriggja barna sinna á grundvelli a-, c- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur féllst á að skilyrði greinarinnar væru uppfyllt og tók til greina fyrrnefnda kröfu gagnaðila. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi barst Hæstarétti 9. ágúst 2021 en þá var fjögurra vikna frestur til að sækja um áfrýjunarleyfi liðinn, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991. Eftir 2. mgr. sömu lagagreinar getur rétturinn orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu fjórar vikur eftir lok þessa frests, enda sé dráttur á umsókn nægilega réttlættur. Leyfisbeiðandi vísar til þess að hún hafi átt við mikinn fjárhagsvanda að stríða frá dómsuppkvaðningu og af þeim sökum hafi hún ekki getað staðið straum af tilheyrandi kostnaði við áfrýjun málsins fyrr en nú.

4. Heimildarákvæði 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er undantekning frá meginreglu um fjögurra vikna frest til að sækja um áfrýjunarleyfi og ber að skýra það þröngt. Þær skýringar sem leyfisbeiðandi hefur gefið á því að ekki var sótt um áfrýjunarleyfi innan tímamarka 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 fullnægja ekki þeim áskilnaði sem tilgreindur er í 2. mgr. 177. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni hennar um áfrýjunarleyfi hafnað.