Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-48
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Nauðungarsala
- Sameign
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 28. mars 2023 leitar Bára Garðarsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 14. mars 2023 í máli nr. 30/2023: Bára Garðarsdóttir gegn Helgu Rós Níelsdóttur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta á rætur sínar að rekja til þess að sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra féllst á kröfu gagnaðila um að hesthús yrði selt nauðungarsölu til slita á sameign aðila. Leyfisbeiðandi krafðist þess að nauðungarsalan yrði felld úr gildi.
4. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans. Héraðsdómur vísaði til þess að óumdeilt væri að gagnaðili hefði skorað á leyfisbeiðanda að ganga til samninga um slit á sameigninni og tekið fram að nauðungarsölu yrði krafist að liðnum lögboðnum fresti. Skilyrði 10. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu væru því uppfyllt. Í úrskurði héraðsdóms kom jafnframt fram að hesthúsið hefði verið sameign aðila enda hefði gagnaðili eignast helming í fasteigninni með greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi. Ekki skipti máli þótt gagnaðili hefði ekki fengið afsal frá leyfisbeiðanda. Þá taldi héraðsdómur að gagnaðili hefði fært fram nægilega sönnun fyrir því að húsinu yrði ekki skipt án þess að þeirri skiptingu fylgdi verulegur kostnaður. Loks stæðu fyrirmæli annarra laga eða samnings aðila því ekki í vegi að krafa gagnaðila um nauðungarsölu næði fram að ganga. Skilyrði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 væru því uppfyllt.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um skilgreiningu eignaréttar og laga um nauðungarsölu á hugtakinu óskiptri sameign. Þá sé úrlausn Landsréttar bersýnilega röng að efni til og það hafi verulega almenna þýðingu að úrskurðinum verði snúið við þar sem hann feli í sér að kaupandi fasteignar geti án afsals fyrir eign og óháð rétti sínum til afsals krafist nauðungarsölu á hinni seldu eign og þannig valdið seljanda eignarinnar verulegu tjóni.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem byggt er á af hálfu leyfisbeiðanda þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sem hér á við, sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.