Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-50
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Tryggingarbréf
- Fjárnám
- Veðréttur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 2. apríl 2022 leitar Selló ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. mars sama ár í máli nr. 303/2021: Selló ehf. gegn Landsbankanum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda verði gert að þola fjárnám vegna skuldar Kraga ehf. við gagnaðila að fjárhæð 36.234.443 krónur auk dráttarvaxta að frádreginni innborgun inn í veðrétt samkvæmt nánar tilgreindum tryggingarbréfum sem öll eru áhvílandi á tilgreindri fasteign leyfisbeiðanda.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á framangreinda kröfu gagnaðila. Í dóminum kom fram að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun þess að við skipti þrotabús Kraga ehf. hefði ekki verið tekið tillit til allra eigna félagsins og hann ekki lagt fram viðhlítandi sönnunargögn um eðlilegt markaðsverð tilgreindra fasteigna. Því hefði leyfisbeiðanda ekki tekist að sanna að þær hefðu verið seldar undir eðlilegu markaðsvirði.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um rétt kröfuhafa til innheimtu við aðstæður eins og uppi eru í málinu. Í öðru lagi varði úrslit málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans þar sem félaginu sé gert að þola fjárnám í eign þess vegna skulda annars félags, en skiptum á búi þess hafi lokið fyrir 12 árum. Þá byggir hann í þriðja lagi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Því til stuðnings vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að Landsréttur hafi ranglega lagt sönnunarbyrði um verðmæti tilgreindra eigna á sig.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.