Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-151

Þorláksverk ehf. (Jón Ármann Guðjónsson lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Ölfusi (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sveitarfélög
  • Lóðarleigusamningur
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Gatnagerðargjald
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 13. desember 2023 leitar Þorláksverk ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. nóvember sama ár í máli nr. 354/2022: Sveitarfélagið Ölfus gegn Þorláksverki ehf. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

3. Þróunarfélagið Land ehf. fékk lóðir úthlutaðar árið 2006. Félagið greiddi ekki að fullu gjöld vegna lóðanna og framseldi þær til leyfisbeiðanda árið 2008. Sama ár átti leyfisbeiðandi samskipti við fyrirsvarsmenn gagnaðila um heimild til framsalsins. Árið 2012 óskaði leyfisbeiðandi eftir viðræðum við gagnaðila um möguleg skil lóðanna en af því varð ekki meðal annars þar sem leyfisbeiðandi hafnaði tilboði gagnaðila sem bauðst til að endurgreiða innborganir lóðagjalda en var ekki tilbúinn að endurgreiða staðfestingargjald eða fyrir framkvæmdir sem höfðu átt sér stað á lóðunum. Gagnaðili endurúthlutaði lóðunum árin 2015 til 2017. Árið 2019 sendi leyfisbeiðandi bréf til gagnaðila þar sem hann sagðist hafa orðið þess var að lóðunum hefði verið endurúthlutað. Ágreiningur málsins varðar kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna endurúthlutunar á lóðunum auk endurgreiðslu greiddra gjalda.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum hans. Í dómi Landsréttar var rakið að Þróunarfélagið Land ehf. hefði ekki greitt nema lítinn hluta gatnagerðargjalda og gjöldin því að stærstum hluta verið ógreidd er gagnaðili úthlutaði lóðunum á nýjan leik árið 2017. Þá sagði í dóminum að samkvæmt skýru ákvæði í úthlutunarreglum gagnaðila skyldu lóðirnar falla aftur til hans í slíku tilviki, án sérstakrar tilkynningar og leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að þau væru í ósamræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Að mati dómsins var talið að líta yrði á tölvupóstsamskipti þáverandi bæjarstjóra gagnaðila og leyfisbeiðanda sem viðleitni gagnaðila til að undirbúa ákvörðun bæjarráðs um lóðaúthlutun. Þá var tekið fram að samkvæmt úthlutunarreglum gagnaðila væri það hlutverk bæjarráðs að úthluta byggingarlóðum í umboði bæjarstjórnar en leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að bæjarráð hefði úthlutað lóðum til hans. Þá hefði Þróunarfélaginu Landi ehf. samkvæmt sömu reglum verið óheimilt að afhenda gagnaðila lóðirnar fyrr en lóðarleigusamningur hefði verið verið gefinn út vegna þeirra. Þar sem leyfisbeiðandi hefði þannig aldrei eignast hin umdeildu lóðarréttindi yrði að sýkna gagnaðila af kröfum hans.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Annars vegar um áreiðanleika yfirlýsinga hins opinbera gagnvart borgurunum og ákvarðanir sem þeir taka á grundvelli þeirra. Hins vegar um hvort hið opinbera geti sett sér vinnureglur sem standi framar lögum eða undanskilji stjórnvald stjórnsýslulögum við afturköllun stjórnvaldsákvörðunar. Auk þess byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur. Loks hafi rökstuðningur Landsréttar verið í andstöðu við fyrirmæli f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.