Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-19
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Börn
- Innsetningargerð
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Haagsamningurinn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 6. febrúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 31. janúar 2023 í máli nr. 775/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að þrjú börn aðila verði tekin úr umráðum leyfisbeiðanda með beinni aðfarargerð og afhent sér.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila. Í úrskurði héraðsdóms var því slegið föstu að för leyfisbeiðanda með börnin til Íslands og eftirfarandi hald á þeim hér á landi væri ólögmætt í skilningi 11. gr. laga nr. 160/1995 um fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Í úrskurði héraðsdóms var vísað til þess að dómstólar í […] hefðu þegar lagt mat á hagsmuni barnanna og kveðið á um það í tveimur dómsmálum, þar af öðru á tveimur dómstigum, að börnin skyldu búa hjá gagnaðila og jafnframt í síðasta dóminum að hann skyldi einn fara með forsjá þeirra. Yrði það hagsmunamat ekki endurskoðað í máli sem höfðað væri hér á landi á grundvelli IV. kafla laga nr. 160/1995. Engu að síður þyrfti aðilum að gefast raunhæfur kostur að upplýsa hvort skilyrði 12. gr. laga nr. 160/1995 væru uppfyllt til að synja mætti um afhendingu. Hefði það verið gert með öflun matsgerðar dómkvadds manns sem ekki einungis kannaði viljaafstöðu barnanna, sbr. 3. tölulið greinarinnar, heldur lagði jafnframt mat á aðstæður þeirra með hliðsjón af 2. tölulið. Héraðsdómur féllst ekki á að með takmörkuðum umgengnisrétti leyfisbeiðanda við börnin samkvæmt dómi í […] væri brotið gegn rétti hennar þannig að fullnægt væri skilyrðum 4. töluliðar 12. gr. laganna. Þá komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að hvorki væru skilyrði til að synja um afhendingu barnanna á grundvelli 2. né 3. töluliðar 12. gr. laga nr. 160/1995.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi fyrir önnur mál sem höfðuð eru á grundvelli laga nr. 160/1995. Leyfisbeiðandi telur að með úrskurði Landsréttar sé vilji barnanna algjörlega virtur að vettugi og hann sé í ósamræmi við þá vernd sem réttindum barna er tryggð í barnalögum nr. 76/2003 og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þessi niðurstaða leiði því til óvissu um hvaða áhrif afstaða barnanna hafi við úrlausn máls. Þá hafi dómur í málinu fordæmisgildi um vernd fjölskyldusameiningar á grundvelli 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt hvort ákvörðun […] dómstóla um umgengni leyfisbeiðanda við börnin sé í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um vernd mannréttinda. Enn fremur byggir leyfisbeiðandi á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og vísar einkum til þess að niðurstaðan fari í bága við dómafordæmi Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að hún hafi lagt fram matsbeiðni í því skyni að framkvæmd yrði rannsókn á fjölskylduaðstæðum og högum barnanna en henni hafi verið synjað. Því hafi ekki legið fyrir fullnægjandi upplýsingar til að unnt væri að taka ákvörðun um afhendingu barnanna út frá heildarmati á hagsmunum þeirra. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Enda þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda háttar svo almennt til í málum sem lúta að málefnum barna. Beiðninni er því hafnað.