Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-249

A (Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður)
gegn
B (Einar Páll Tamimi lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. október 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 29. september 2021 í málinu nr. 507/2021: B gegn A, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra samkvæmt XIV. kafla laga nr. 20/1991. Meðal ágreiningsefna er sú krafa gagnaðila að við fjárslit þeirra verði lagt til grundvallar að leyfisbeiðandi hafi á viðmiðunardegi skipta átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum.

4. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 15. júlí 2021 var framangreindri kröfu gagnaðila sem laut að innstæðum leyfisbeiðanda á erlendum bankareikningum hafnað. Sá úrskurður var kærður til Landsréttar. Í úrskurði Landsréttar 29. september sama ár kom fram að skiptastjóri hefði ítrekað beint til leyfisbeiðanda áskorun um að leggja fram yfirlit um bankainnstæður sem skráðar væru í hans nafni í erlendum bönkum. Leyfisbeiðandi hefði vanrækt að verða við þeim áskorunum þótt hann hefði viðurkennt tilvist slíkra reikninga. Í ljósi fyrrgreindra áskorana skiptastjóra og þess að gagnaðili hefði ekki átt kost á því að afla umræddra yfirlita var þessi aðstaða skýrð á þann hátt sem var gagnaðila hagfelldust. Landsréttur féllst því á kröfu gagnaðila um að lagt yrði til grundvallar að leyfisbeiðandi hefði á viðmiðunardegi skipta átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum. Að öðru leyti var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Hann telur mikilsverða almannahagsmuni felast í því að endanleg dómsniðurstaða byggi ekki á röngum upplýsingum. Í öðru lagi hafi kæruefnið fordæmisgildi um túlkun og beitingu 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991. Í þriðja lagi byggir hann á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Hann vísar til þess að kæran lúti að því að fá efnisúrlausn um hvaða eignir hans á viðmiðunardegi skipta falli undir þau. Loks byggir hann á því að ástæða sé til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi og efni til. Í þeim efnum vísar leyfisbeiðandi til nýrra gagna sem lögð hafi verið fyrir Hæstarétt sem sýni að innstæður hans á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta nemi ekki fyrrgreindri fjárhæð. Þá sé niðurstaða Landsréttar ekki í samræmi við dóm Hæstaréttar 15. september 2016 í máli nr. 511/2016.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðnin er því samþykkt.