Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-296

Arion banki hf. (Andri Árnason lögmaður)
gegn
þrotabúi WOW air hf. (Þorsteinn Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Handveð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 26. nóvember 2021 leitar Arion banki hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 15. sama mánaðar í málinu nr. 607/2021: Þrotabú WOW air hf. gegn Arion banka hf. á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti gagnaðila um að hann njóti veðréttar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 í fjármunum sem lagðir voru inn á tiltekna bankareikninga. Byggir hann kröfu sína meðal annars á handveðsyfirlýsingu sem WOW air hf. gerði 15. desember 2015, eins og henni var breytt með viðauka 4. febrúar 2016. Skiptastjóri gagnaðila viðurkenndi veðrétt leyfisbeiðanda samkvæmt 111. gr. laganna í umræddum reikningum á grundvelli yfirlýsingarinnar að því leyti sem nam innstæðum þeirra á úrskurðardegi 28. mars 2019 um gjaldþrotaskipti WOW air hf. Ágreiningur málsaðila lýtur hins vegar að því hvort veðréttur leyfisbeiðanda taki til þeirra fjármuna sem lagðir voru inn á reikningana eftir það tímamark.

4. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2021 var krafa leyfisbeiðanda tekin til greina. Í fyrrgreindum dómi Landsréttar kom fram að ekki yrði fallist á það með leyfisbeiðanda að réttur hans næði til innstæðna á umræddum reikningum eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti WOW air hf. enda yrði sú ályktun hvorki dregin af orðalagi 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991 né lögskýringargögnum. Var kröfu hans því hafnað.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi mikilvægt fordæmisgildi meðal annars varðandi umfang veðréttar og rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Þannig hafi ekki, svo kunnugt sé, reynt með beinum hætti á ágreiningsefni málsins í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Úrlausn Hæstaréttar gæti um leið haft leiðsagnargildi fyrir afmörkun veðréttinda í annars konar eignum sem kunna að hækka í verði eftir úrskurðardag. Með vísan til þessa telur hann að úrlausn kæruefnisins myndi hafa töluvert almennt gildi og réttarskapandi áhrif. Af því leiði að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Loks telur leyfisbeiðandi að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu og að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi til eða efni. Beiðninni er því hafnað.