Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-66

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Slysatrygging
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Varanlegur miski
  • Uppgjör
  • Vátryggingarsamningur
  • Fyrirvari
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 3. maí 2022 leitar Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl sama ár í máli nr. 160/2021: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili slasaðist við vinnu sína sem háseti um borð í frystitogara árið 2014 og greiddi leyfisbeiðandi honum skaðabætur úr lögboðinni slysatryggingu árið 2016 en gagnaðili gerði tilgreinda fyrirvara við það uppgjör. Árið 2020 höfðaði hann mál þetta gegn leyfisbeiðanda til greiðslu frekari bóta vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku. Sú krafa var reist á áliti örorkunefndar en leyfisbeiðandi krafðist sýknu meðal annars á þeim grunni að gagnaðili hefði ekki farið að skilmálum vátryggingarinnar þess efnis að tjónþolum bæri undantekningarlaust að afla matsgerðar um varanlegar afleiðingar slyss í síðasta lagi þremur árum eftir það.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfur gagnaðila um frekari bætur úr hendi leyfisbeiðanda. Í dómi réttarins kom fram að með fyrirvara hefði gagnaðili áskilið sér rétt til að gera frekari kröfur um bætur ef endurmat á örorku og miska leiddi í ljós meira tjón en hefði legið fyrir við uppgjörið. Þá lægi jafnframt fyrir að leyfisbeiðandi hefði lengst af ekki borið fyrir sig ákvæði í tryggingarskilmálum um tímafrest við þær aðstæður sem uppi væru í málinu. Leyfisbeiðandi hefði engum andmælum hreyft gegn fyrirvaranum eða gildissviði hans, né gert sérstakan áskilnað um að nýtt mat yrði að leggja fram innan þriggja ára frá slysdegi í samræmi við ákvæði tryggingarskilmálanna. Yrði leyfisbeiðandi látinn bera hallann af því að hafa ekki skilmerkilega áréttað þann áskilnað. Álit örorkunefndar var því lagt til grundvallar og kröfur gagnaðila teknar til greina.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem við uppgjör vátryggingarbóta reyni reglulega á samhljóða ákvæði í vátryggingarskilmálum auk þess sem dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun fyrirvara við bótauppgjör. Þá telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til þar sem dómurinn sé í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar. Jafnframt telur hann niðurstöðu Landsréttar um meðal annars gildissvið fyrirvarans og um skyldu leyfisbeiðanda til að bregðast við honum bersýnilega ranga og í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi meðal annars um skýringu vátryggingarsamnings og þýðingu fyrirvara við bótauppgjör þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.