Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-189

Einar Páll Tamimi (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
Íslandsbanka hf. (Áslaug Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. júlí 2021 leitar Einar Páll Tamimi leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. júní sama ár í málinu nr. 174/2020: Einar Páll Tamimi gegn Íslandsbanka hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort lán sem leyfisbeiðandi tók samkvæmt tveimur skuldabréfum, eins og þeim var síðar breytt með skilmálabreytingum, væru í íslenskum krónum og bundin ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eða hvort um væri að ræða lögmæt lán í erlendum myntum. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að í dómum Hæstaréttar, þar sem leyst hefði verið úr sambærilegum álitaefnum, hefði áherslan fyrst og fremst verið lögð á skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefði gengist undir. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að í skilmálabreytingum skuldabréfanna hefði komið skýrlega fram að upphæð hvors láns skyldi verða í erlendri mynt eftir umrædda breytingu og að lánið skyldi eftirleiðis bera svokallaða LIBOR-vexti. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að með skilmálabreytingunum hefði skuldabréfunum, sem áður höfðu verið í íslenskum krónum, verið breytt í lögmæt lán í erlendum myntum. Gagnaðili var því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Hann telur mikilvægt að Hæstiréttur taki ótvíræða og rökstudda afstöðu til þess hvort sú málsástæða hans að viðskiptabréfsreglur standi því í vegi að gagnaðili geti byggt á fyrrgreindum skilmálabreytingum sé of seint fram komin. Þá sé mikilvægt að fá dóm Hæstaréttar um hvort skýra eigi skilmálabreytingar á skuldaskjölum textaskýringu eða einungis skuldaskjölin sjálf þegar metið sé hvort um sé að ræða lán í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant, auk þess sem dómur réttarins sé bersýnilega rangur að efni til, einkum þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til fyrrnefndrar málsástæðu sinnar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.