Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-148

A (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tryggingarbréf
  • Veðleyfi
  • Tómlæti
  • Ógilding samnings
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 30. nóvember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í máli nr. 480/2021: A gegn Landsbankanum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu á hluta söluandvirðis fasteignar hennar sem gagnaðili ráðstafaði 24. ágúst 2011 til niðurgreiðslu á skuld eiginmanns leyfisbeiðanda sem var tryggð með veði í fasteigninni á grundvelli nánar tilgreindra tryggingabréfa. Leyfisbeiðandi byggir á því að gagnaðila hafi einungis verið heimilt að ráðstafa helmingi söluandvirðisins til niðurgreiðslu skuldarinnar þar sem veðsetningin hafi ekki náð til hennar eignarhlutar í fasteigninni. Þá hafi stofnun veðsetningarinnar verið ógild þar sem gagnaðili hafi vanrækt að meta greiðslugetu eiginmanns hennar og fylgja að öðru leyti ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar var talið ótvírætt að veðsetningin hefði náð til allrar fasteignarinnar og að leyfisbeiðandi hefði með áritun sinni á tryggingarbréfin samþykkt að veðsetja sinn eignarhluta. Jafnframt var vísað til þess að leyfisbeiðandi hefði keypt eignarhluta eiginmanns síns í hinni veðsettu fasteign 15. desember 2008 og greitt fyrir hann með yfirtöku allra áhvílandi veðskulda, þar með talið þeirra skulda sem tryggð voru með umræddum tryggingarbréfum. Þá var talið rétt, að virtum málsatvikum í heild og að gættu tómlæti leyfisbeiðanda um að hafa uppi andmæli gegn gildi veðsetningarinnar, að hún bæri hallann af sönnunarskorti um að gerð greiðslumats á umræddum tíma hefði einhver áhrif haft á vilja hennar til veðsetningarinnar. Því var ekki fallist á að stofnun veðsetningarinnar væri ógild.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hún til þess að Landsréttur hafi vikið frá réttarframkvæmd með því að snúa sönnunarbyrði við vegna tómlætis þannig að hún hafi þurft að sanna að hún hefði ekki veitt samþykki fyrir veðsetningu fasteignarinnar í öndverðu. Sú niðurstaða skapi réttaróvissu og því nauðsynlegt að Hæstiréttur taki málið til úrlausnar. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.