Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-160

Birkir Leósson (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
D&T sf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Starfslok
  • Uppgjör
  • Hagnaðarhlutdeild
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 10. júní 2021 leitar Birkir Leósson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. maí 2021 í málinu nr. 29/2020: Birkir Leósson gegn D&T sf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Mál þetta lýtur að uppgjöri gagnaðila við leyfisbeiðanda við starfslok hans vegna eignarhlutar hans í gagnaðila. Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur hafnaði því að við innlausn eignarhluta leyfisbeiðanda í gagnaðila yrði beitt annarri reikningsaðferð um uppgjör við útgöngu úr félaginu en þeirri sem getið væri um í samkomulagi A-félagsmanna í frá 14. nóvember 2013. Þá hafnaði dómurinn kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á rétti hans til hlutdeildar í hagnaði félagsins vegna þess rekstrarárs þegar innlausn hluta hans átti sér stað. Að sama skapi hafnaði dómurinn því að leyfisbeiðandi hefði átt rétt til hlutdeildar í hagnaði sem haldið hafði verið eftir í félaginu vegna nánar tilgreindra rekstrarára. Loks taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að gagnaðili hefði sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem hann bæri ábyrgð á eða að ógilda mætti uppgjörið á grundvelli nánar tiltekinna ógildingarreglna samningaréttar.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Hann telur að í málinu reyni á nokkur grundvallaratriði í félaga- og fjármunarétti sem ekki hafi áður verið skorið úr um. Hann vísar í því sambandi til samspils ákvæða laga nr. 50/2007 um sameignarfélög um réttarstöðu félagsmanna við útgöngu úr félagi og samninga félagsmanna um frávik frá hinum almennu reglum. Að mati leyfisbeiðanda kann dómur í málinu meðal annars að hafa fordæmisgildi um stöðu félagsmanns sem ekki samþykkir breytingar á félagasamningi í sameignarfélagi og hvort um réttarstöðuna fari þá eftir eldri samningi, sem felldur hefur verið úr gildi, yngri samningi eða lögum um sameignarfélög.

5. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Að mati leyfisbeiðanda hafi Landsréttur ranglega komist að þeirri niðurstöðu að í nýjum samningi A-félagsmanna frá 2017 hafi ekki falist niðurfelling eldra samkomulags frá 14. nóvember 2013 í heild. Leyfisbeiðandi fái heldur ekki séð, eins og niðurstaða Landsréttar feli í sér, að tveir ósamrýmanlegir félagasamningar geti gilt milli félagsmanna eins og sama félagsins, hvað þá þegar þeir feli í sér frávik frá ákveðnum ákvæðum laga um sameignarfélög. Auk þess byggir leyfisbeiðandi á því að Landsréttur hafi ranglega talið að hann ætti ekki rétt á hagnaðarhlutdeild vegna síðasta rekstrarárs þar sem hann hafi ekki undirritað nýjan félagasamning. Leyfisbeiðandi mótmælir jafnframt þeim forsendum Landsréttar að krafa hans um hlutdeild í fjárfestingastyrk sem alþjóðafélag Deloitte hafi veitt gagnaðila hafi ekki verið studd fullnægjandi rökum. Til viðbótar bendir leyfisbeiðandi á að ef dómur Landsréttar fái að standa óhaggaður sé ljóst að stjórn sameignarfélags geti haft það í hendi sér hvort hagnaður félagsmanna, sem búið er að úthluta en haldið er eftir, sé greiddur við útgöngu þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum um sameignarfélög. Leyfisbeiðandi telur einnig að niðurstaða Landsréttar um málskostnað sé röng.

6. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði verulega persónulega hagsmuni sína þar sem um sé að ræða eign hans í félagi þar sem hann hafði starfað um langt skeið og innlausn á henni, auk þess sem hann hafi neyðst til að hætta störfum í félaginu og þar með hafi aflahæfi hans skerst verulega.

7. Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann telur að úrslit málsins hafi hvorki verulegt almennt gildi eða að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hann mótmælir því meðal annars að í málinu reyni á grundvallaratriði í félaga- og fjármunarétti sem ekki hafi áður verið skorið úr um. Þannig hafi í fjölda mála reynt á túlkun frávíkjanlegra lagaákvæða, þar með talið þar sem einstaklingum og félögum hafi verið veitt heimild til þess að semja sín á milli um ákveðin atriði, þá þannig að sé það ekki gert gildi sett lagaákvæði. Að mati gagnaðila reyni í málinu á hefðbundin álitaefni um túlkun í samningarétti sem ekki hafi fordæmisgildi til framtíðar.

8. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt er ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laganna. Beiðnin er því samþykkt.