Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-144

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður) og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 27. maí 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. apríl sama ár í málinu nr. 146/2020: A gegn íslenska ríkinu og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili, íslenska ríkið, leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði til áfrýjunar séu uppfyllt. Gagnaðili, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á óskiptri bótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir af völdum vinnuslyss í húsnæði Heilbrigðisstofnunar [...]. Leyfisbeiðandi slasaðist á vinstri handlegg og öxl er hann féll úr tréstiga þegar hann þurfti að fara upp á háaloft húsnæðisins. Í dómi Landsréttar var talið að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að orsök slyssins mætti rekja til saknæms og ólögmæts galla eða vanbúnaðar á umræddum stiga eða í húsnæði heilbrigðisstofnunarinnar. Var dómur héraðsdóms staðfestur um að slysið hefði stafað af óhappatilviljun sem rekja mætti til aðgæsluleysis leyfisbeiðanda sjálfs.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir þá sem slasast alvarlega við vinnu, þegar vinnuslys eru ekki rannsökuð af Vinnueftirliti ríkisins. Þá hafi málið einnig almennt gildi varðandi þau sönnunargögn sem heimilt sé að byggja á í samskonar málum. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem niðurstaða dómsins hafi fyrst og fremst byggst á myndböndum sem gagnaðili íslenska ríkið hefði lagt fram fyrir Landsrétti og sýni stigann og aðstæður á slysavettvangi. Að mati leyfisbeiðanda eru umrædd myndbönd ekki lögleg sönnunargögn. Þá hafi Landsréttur ekki tekið á málsástæðum hans um að gerð stigans hafi brotið gegn grein 4.2 í II. viðauka við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Jafnframt hafi verið brotið gegn reglunni um réttláta málsmeðferð þar sem ekki hafi verið kvaddir til sérfróðir meðdómendur í málinu. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.