Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-102
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Slys
- Slysatrygging
- Sjómaður
- Sönnun
- Viðurkenningarkrafa
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 7. júlí 2022 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. júní sama ár í máli nr. 210/2021: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu leyfisbeiðanda úr slysatryggingu sjómanna á tilgreindu skipi vegna líkamstjóns sem gagnaðili byggir á að hann hafi hlotið í vinnuslysi 19. nóvember 2017. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðili hafi orðið fyrir slysi um borð í skipinu umræddan dag og ef svo er hvort það falli undir slysahugtak vátryggingaréttar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á framangreinda kröfu gagnaðila. Landsréttur vísaði til þess að framburður gagnaðila um að hann hefði orðið fyrir slysi fyrrnefndan dag fengi stoð í ýmsum gögnum, meðal annars tilkynningu útgerðar og skipstjóra til almannatrygginga, undirritaðrar skýrslu skipstjóra um vinnuslys gagnaðila nefndan dag sem og læknisvottorðs. Var því talið sannað að gagnaðili hefði orðið fyrir slysi um borð í skipinu 19. nóvember 2017. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu með vísan til tilgreindra gagna málsins að sannað væri að slysið hefði orðið með þeim hætti sem gagnaðili lýsti fyrir dómi. Að fenginni þeirri niðurstöðu gæti ekki farið á milli mála að það félli undir slysahugtak vátryggingaréttar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Því til stuðnings vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sönnunarkröfur og sönnunarbyrði í skaðabótamálum þegar svo hátti til að tjónþoli láti ekki vita fyrr en síðar að meint atvik hafi átt sér stað og engum samtímagögnum sé til að dreifa. Í ljósi fyrri fordæma Hæstaréttar beri tjónþoli hallann af sönnunarskorti í slíkum tilvikum. Dómur Landsréttar gangi þannig þvert á fordæmi Hæstaréttar enda hafi tjónþoli ekki greint frá slysinu fyrr en tæpum sjö vikum eftir að meint atvik átti sér stað. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína í ljósi þess að við uppgjör vátryggingarbóta reyni reglulega á þær sönnunarkröfur sem gerðar eru til tjónþola.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.