Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-82

A (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
B (Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Kjarasamningur
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 22. júní 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. maí 2023 í máli nr. 127/2022: B gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta úr hendi gagnaðila vegna fyrirvaralausrar brottvikningar úr starfi.

4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Ekki þóttu efni til að hnekkja því mati gagnaðila að leyfisbeiðandi hefði orðið uppvís að grófu broti í starfi og að heimilt hefði verið að víkja henni fyrirvaralaust úr því, sbr. 7. mgr. greinar 14.8 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, vegna Félags grunnskólakennara, sem gilti um ráðningarsamband aðila. Dómurinn taldi jafnframt að gagnaðili hefði ekki brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunarinnar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun kjarasamningsgreinar 14.8 enda sé samsvarandi ákvæði að finna í velflestum kjarasamningum sem Samband íslenskra sveitafélaga er aðili að. Til samanburðar sé áþekkt ákvæði í 45. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Meginreglan samkvæmt ákvæðunum sé að veita skuli starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en gripið sé til uppsagnar. Þá sé til þess að líta að sakarefnið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda enda hafi hún átt 25 ára flekklausan feril sem grunnskólakennari en sé nú útmáluð sem manneskja sem beiti nemendur sína ofbeldi og orðspor hennar gjöreyðilagt. Hún sé sem stendur atvinnulaus og eigi ekki kost á kennarastöðu í heimabyggð sinni. Að síðustu byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og svo virðist sem Landsréttur hafi ekki lagt heildstætt mat á atvik máls.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um það hvenær heimilt sé að víkja starfsmanni sveitarfélags fyrirvaralaust úr starfi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.