Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-194

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Þormóður Skorri Steingrímsson)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot í opinberu starfi
  • Lögreglumaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. júlí 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í málinu nr. 442/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu var ákærða gefið að sök stórfelld vanræksla eða hirðuleysi í opinberu starfi samkvæmt 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa látið hjá líða, er hann var að störfum sem lögreglumaður við leit í tilgreindu húsnæði, að leggja hald á kannabisblandaðan vökva og fyrir að hafa ekki sinnt skyldum sínum sem lögreglumaður til að leita frekar að ávana- og fíkniefnum í húsnæðinu og leggja hald á tiltekið magn kannabisefna og kannabisblandaðs vökva. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur og ákærði sýknaður af sakargiftum. Í dómi Landsréttar kom fram að fyrir brot gegn fyrrnefndu ákvæði almennra hegningarlaga yrði ekki refsað nema það væri framið af ásetningi og ákvæðinu yrði ekki beitt nema um væri að ræða gróf eða ítrekuð tilvik vanrækslu eða hirðuleysis. Við mat á því hvort ákærði hefði látið hjá líða að leggja hald á kannabisefnin var litið til þess að ekkert hefði komið fram í málinu um að ákærði hefði haft ástæðu til að líta framhjá fíkniefnunum á staðnum auk þess sem sannað hefði verið að hann hefði framkvæmt frekari leit í húsnæðinu og utandyra. Þá var ekki talið sannað að ákærði hefði séð, hlotið að vera ljóst eða látið sér í léttu rúmi liggja hvort í tiltekinni fötu hefðu verið kannabisefni. Með vísan til þess og annars sem fram hefði komið í dómi héraðsdóms var ákærði sýknaður af því að hafa af ásetningi látið hjá líða að leggja hald á kannabisefni, önnur en vökva, við húsleitina. Þá kom fram í dómi Landsréttar að sannað væri í málinu að ákærði hefði látið hjá líða að haldleggja 300-500 millilítra af vökva sem til hafi staðið að búa til CBD-olíu úr og að um fíkniefni hefði verið að ræða í skilningi laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Hins vegar taldi rétturinn að sú háttsemi ákærða hefði ekki falið í sér stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi í skilningi 1. mgr. 141. gr. almennra hegningarlaga í ljósi þess hve vökvamagnið var lítið og hlutfall tetrahýdrókannabínóls í því lágt.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann telur að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um beitingu ákvæðis 141. gr. almennra hegningarlaga einkum þegar um ætluð brot lögreglumanna í starfi er að ræða. Auk þess telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann til þess að með dómi Landsréttar hafi ákærði verið sýknaður af broti gegn 141. gr. almennra hegningarlaga þrátt fyrir að lagt hafi verið til grundvallar að hann hafi sem lögreglumaður við húsleit látið hjá líða að leggja hald á 300-500 millilítra af kannabisblönduðum vökva. Vísar leyfisbeiðandi til þess að ákærði hafi enga vitneskju haft um magn og sér í lagi styrkleika fíkniefnanna sem hefðu verið í pottinum þegar atvik áttu sér stað og ætti það því ekki að hafa þýðingu við heimfærslu háttsemi ákærða til ákvæðisins. Ákærði hafi vitað að kannabisefni væru í þeim vökva sem var í potti á eldavél. Hann hafi staðið húsráðanda að því að fremja brot gegn lögum nr. 65/1974 en ákveðið að aðhafast ekki. Hann hafi starfað sem lögreglumaður í 13 ár og að mati leyfisbeiðanda væri það stórfelld vanræksla eða hirðuleysi í starfi lögreglumanns að láta hjá líða að bregðast við með þeim hætti sem lög kveði á um þegar hann standi mann að broti.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Enn fremur er niðurstaða Landsréttar um sýknu að hluta til byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.