Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-258

Grandagarður ehf. (Gunnar Jónsson lögmaður)
gegn
Kríu Hjól ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Húsaleigusamningur
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 22. október 2021 leitar Grandagarður ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. september sama ár í málinu nr. 251/2020: Kría Hjól ehf. gegn Grandagarði ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta á grundvelli húsaleigusamnings aðila frá árinu 2012 þar sem fjallað er um skil hins leigða að leigutíma loknum. Leyfisbeiðandi telur að gagnaðili hafi valdið tjóni á húsnæðinu þannig að varði bótaábyrgð og nema dómkröfur leyfisbeiðanda fjárhæð sem er í samræmi við niðurstöðu dómkvadds manns um kostnað verktaka og efniskostnað við að koma húsnæðinu í sambærilegt horf og það var þegar gagnaðili tók því.

4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2020 var fallist á fjárkröfu leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að við mat á tjóni í skilningi skaðabótaréttar geti atvik í framhaldi af ætluðum tjónsatburði skipt máli við ákvörðun skaðabóta. Þó svo að fallast mætti á með leyfisbeiðanda að skil gagnaðila á hinu leigða húsnæði hefðu ekki verið í samræmi við húsaleigusamning aðila, og ráðstafanirnar þar með að einhverju leyti saknæmar, lægi hins vegar ekki fyrir hvert hið endanlega tjón leyfisbeiðanda af háttsemi gagnaðila hefði verið. Vísaði Landsréttur til þess að í matsbeiðni leyfisbeiðanda hefði ekki verið gerð krafa um að fjallað yrði um hvernig nýr leigutaki leyfisbeiðanda hefði innréttað húsnæðið fyrir sína starfsemi og þar með hvort eða að hvaða marki leyfisbeiðandi hefði þurft að bera kostnað af leigutakaskiptum. Gagnaðili hefði staðhæft að svo væri ekki. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að eins og atvikum málsins væri háttað yrði leyfisbeiðandi látinn bera hallann af skorti á sönnun um þetta efni, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda og honum dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að hann eigi og leigi út atvinnuhúsnæði. Því hafi hann mikilvæga hagsmuni af því að leigutökum sé við lok samninga gert að skilja við leigt húsnæði í því ástandi sem um hafi verið samið. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann meðal annars til þess að gagnaðili hefði í málinu gengist við vanefndum sínum og Landsréttur staðfest þær. Engu að síður hefði verið sýknað af bótakröfu á grundvelli sem leyfisbeiðandi telur ekki standast.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.