Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-239

Valdimar Þ. Valdimarsson (Jóhannes S. Ólafsson lögmaður)
gegn
Magneu Valdimarsdóttur (Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Eignarréttur
  • Óskipt sameign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 28. september 2021 leitar Valdimar Þ. Valdimarsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 14. sama mánaðar í málinu nr. 502/2021: Magnea Valdimarsdóttir gegn Valdimar Þ. Valdimarssyni, á grundvelli 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að hrinda ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi 22. mars 2021 um að hafna og endursenda nauðungarsölubeiðni leyfisbeiðanda á grundvelli 2. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991 vegna sumarhúss sem sagt er með fasteignanúmerið F-2208045 og tveggja geymslna á landi Neðan-Sogsvegar 41 í Grímsnes- og Grafningshreppi með landeigendanúmer L169422.

4. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 14. júlí 2021 fékk leyfisbeiðandi ákvörðun sýslumanns hnekkt. Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi 14. september sama ár og staðfesti ákvörðun sýslumanns. Í úrskurði Landsréttar kom fram að ef miðað væri við þinglýstar eignarheimildir væri ranglega greint frá gerðarþolum í nauðungarsölubeiðni. Í þinglýsingabók væru þinglýstir eigendur nauðungarsöluandlagsins sex talsins og að virtum gögnum málsins hefði leyfisbeiðanda ekki tekist að sýna fram á að málsaðilar væru einu eigendur þess. Því gæti áskorun sem send var gagnaðila einum til að ganga til samninga um slit á fasteigninni á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1991 ekki lagt grundvöll að nauðungarsölubeiðninni auk þess sem hún var send í nafni barna leyfisbeiðanda án þess að tiltekið væri að það væri í hans umboði. Var ákvörðun sýslumanns um að hafna og endursenda leyfisbeiðanda nauðungarsölubeiðnina því staðfest.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Hann telur að verði úrskurði Landsréttar ekki hrundið eigi fjölmargir á hættu að verða sviptir eignarrétti sínum eða þurfa að sæta skerðingu á honum. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi þar sem sambærilegt ágreiningsefni hafi ekki áður verið til umfjöllunar hjá Hæstarétti. Loks telur leyfisbeiðandi að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Vísar hann til þess að málsaðilar séu sammála um að sumarbústaðurinn sé í helmingseigu hvors þeirra og því sé ekki deilt um eignarhald í málinu. Því hafi niðurstaða Landsréttar um annað verið byggð á málsástæðu sem ekki hafi verið sett fram af hálfu gagnaðila. Auk þess hafi Landsréttur fjallað um aðrar kröfur en þær sem ákvörðun sýslumanns laut að. Það sé í andstöðu við 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að úrlausn þess geti hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.