Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-42

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Almar Þór Möller lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Mansal
  • Brot í nánu sambandi
  • Barnaverndarlagabrot
  • Peningaþvætti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 16. mars 2023 leitar ríkissaksóknari leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. febrúar 2023 í máli nr. 324/2022: Ákæruvaldið gegn X. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili var ákærð fyrir mansal, brot í nánu sambandi og peningaþvætti í tveimur ákæruliðum. Samkvæmt fyrri ákærulið var gagnaðila gefið að sök mansal en til vara brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa misnotað fjögur þáverandi stjúpbörn sín til nauðungarvinnu. Töldust brotin varða við 2. tölulið 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við a- og b-liði 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 og a- og b- liði 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá var gagnaðila gefið að sök brot í nánu sambandi og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa, meðal annars, haft í hótunum um að senda börnin aftur til upprunalands þeirra. Töldust þau brot varða við 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga og 1. mgr. 98. gr. og 1., sbr. 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í síðari ákærulið var gagnaðila gefið að sök peningaþvætti með því að hafa aflað sér og nýtt ávinning af brotunum, sbr. 1., og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

4. Héraðsdómur sakfelldi gagnaðila fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga gegn þremur eldri stjúpbörnum hennar. Jafnframt var hún sakfelld fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga en sýknuð af ákæru vegna brota gegn barnaverndarlögum. Til viðbótar var hún sakfelld fyrir peningaþvætti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Landsréttur sýknaði gagnaðila. Var vísað til þess að í verknaðarþætti 2. töluliðs 1. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga fælist að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi undir 18 ára í þeim tilgangi sem lýst er í 1. mgr. ákvæðisins meðal annars til nauðungarvinnu. Sakargiftir á hendur gagnaðila tóku til þess að hún hefði útvegað stjúpbörnum sínum dvalarleyfi á Íslandi, flutt þau til landsins, hýst þau og útvegað þeim vinnu. Sá verknaðarþáttur mansalsbrots að „útvega“ fælist í því að útvega fórnarlömb til mansals. Í ákæru væri útvegun bundin við að útvega dvalarleyfi og félli þar með ekki að efnislýsingu ákvæðisins. Það sama ætti við um að útvega börnunum vinnu. Um atvik málsins taldi Landsréttur ekki annað komið fram en að ákvörðun gagnaðila og eiginmanns hennar um að flytja til Íslands með börnin hefði verið byggð á því að högum fjölskyldunnar væri betur borgið hér en í upprunalandi þeirra og að ósannað væri að fyrir gagnaðila hefði vakað að misnota þau til nauðungarvinnu í skilningi ákvæðisins. Ekkert benti til annars en að skólaganga barnanna hefði gengið vel og að þau hefðu getað haft stuðning af föður sínum þegar hagsmunir þeirra voru annars vegar. Þá væri varhugavert í ljósi málsatvika að ganga út frá því að vinnutímaskráning barnanna samkvæmt launaseðlum gæfi rétta mynd af fjölda vinnustunda þeirra.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið sé einstakt og fordæmisgefandi því ekki hafi reynt áður á mansalsákvæði 227. gr. a almennra hegningarlaga með sambærilegum hætti. Mál um slík brot hafi aðeins einu sinni leitt til sakfellingar í dómi. Ekki hafi áður reynt á fyrir dómstólum hvort maður hafi verið látinn sæta nauðungarvinnu í skilningi ákvæðisins, hvað þá þegar börn eiga í hlut. Þá telur leyfisbeiðandi mikilvægt að Hæstiréttur taki afstöðu til beitingar 218. gr. b almennra hegningarlaga í málum af þessum toga.

6. Niðurstaða Landsréttar um sýknu gagnaðila byggir að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að því virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.